Það hitnaði í kolunum í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag þar sem rætt var um afnám gjaldeyrishafta þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sakaði þingmenn stjórnarandstöðunnar um að hafa lekið upplýsingum í fjölmiðla.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á flokksþingi Framsóknarflokksins hafa komið sér á óvart en í ræðunni boðaði Sigmundur álagningu svokallaðs stöðugleikaskatts á þrotabú gömlu bankanna.
Guðmundur, sem situr í samráðsnefnd um afnám hafta, segist hafa talið að uppi væru mörg álitamál og spurningar sem þyrfti að svara varðandi stöðugleikaskattinn áður en ákvörðun væri tekin. „Eftir að ræðan var flutt hafa spurningarnar vaxið. Ég kem hér upp sem eitt stórt spurningarmerki, er búið að ákveða að nota stöðugleikaskatt sem leið til að létta af höftum og útiloka aðra kosti?“ spurði Guðmundur forsætisráðherra.
Sigmundur svaraði því til að von væri á frumvarpi um stöðugleikaskatt og að aðrir kostir hefðu verið metnir.
Guðmundur tók þá aftur til máls og sagði samráðsnefndina virka þannig að nefndarmenn læsu í blöðunum hvað væri að frétta af ferlinu og færi svo á fundin. „Það er boðaður fundur á föstudag þar sem við eigum að fara yfir álitamál tengd þessari leið,“ sagði Guðmundur. „Það er fyndið að vera að fara í þannig samráð ef það er búið að ákveða þetta.“
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata tók undir með Guðmundi og furðaði sig á því að formenn flokkanna hefðu ekki verið boðaðir á fund til að ræða um afnám haftanna.
Sigmundur svaraði því til að þingmönnum hafi verið haldið upplýstum um gang mála í gegnum fulltrúa flokkanna í samráðsnefndinni. Sagði hann þó hafa sett töluvert strik í reikninginn þegar farið var að ræða við fjölmiðla um það sem átti sér stað á fundinum enda væru nefndarmenn bundnir trúnaði. „Ég sé að hæstvirtur þingmaður Árni Páll Árnason, vill nú ræða störf forseta þingsins og kemur það mér ekki á óvart,“ sagði Sigmundur og fór þá kliður um þingsalinn.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði Sigmund bera nefndarmenn og þá einna helst Árna röngum sökum á lágkúrulegan hátt. „Það komu engar nýjar upplýsingar fram í fjölmiðlum eftir þennan fund. Það er hægt að sanna með því að fara yfir fjölmiðlaumfjöllun dagana á undan,“ sagði Steingrímur og fór fram á afsökunarbeiðni af hálfu forsætisráðherra.
Umræðan um ásakanir forsætisráðherra hélt áfram þegar kom að síðasta lið fyrirspurnartímans, umræðu um störf forseta. Tók Árni Páll til máls en þá hafði Sigmundur yfirgefið þingsalinn.
„Virðulegi forseti það er ekki mikill mannsbragur af því að bera sakir á nafngreinda menn og flýja svo úr salnum þegar þeir bera hönd fyrir höfuð sér,“ sagði Árni og vísaði til auðs sætis Sigmundar. Sagði Árna ríkisstjórnina hafa lekið gögnum skipulega til fjölmiðla og að hann hefði hinsvegar einungis tjáð sig um skoðanir sínar á tilteknum málefnum eftir fund nefndarinnar og að á því hefði hann fullan rétt.
Fjölmargir þingmenn tóku undir orð Árna og sagði Birgitta Jónsdóttir framkomu ráðherra til háborinnar skammar. „Mér finnst mjög alvarlegt að hér komi hæstvirtur forætisráðherra og láti í veðri vaka að þessi nefnd sé lek og að þess vegna sé ekki hægt að halda henni upplýstri. Síðan hleypur hann hér, með skottið á milli lappanna og þarf ekki að svara fyrir sig fyrir að bera út lygar.“
Guðmundur Steingrímsson sagði fundi nefndarinnar hafa verið það fáa að erfitt væri að leka einhverju. „Það er ekki hægt að leka hlutum sem þegar hafa komið fram, sá eini sem brotið hefur trúnað er hæstvirtur forsætisráðherra sem hélt ræðu á eigin flokksþingi um hluti sem enn átti eftir að ræða innan nefndarinnar.“
Katrín Jakobsdóttir sagði brotthvarf forsætisráðherra úr þingsal ekkert nýtt og að því miður væri það svo að afturendi hans væri þingmönnum kunnuglegri en framhliðin. „Hann er alltaf á hlaupum út úr þessu sal þegar mikilvæg málefni eru tekin til umræðu og við horfum á afturendann hverfa,“ sagði Katrín. „Ég sé satt að segja enga ástæðu til þess að stjórnarandstaðan haldi áfram í sýndarsamráði þegar hann tilkynnir hluti á flokksþingi en ekki í nefndinni.“
Fjölmargir þingmenn stigu í pontu og báðu forseta þingsins að veita forsætisráðherra tiltal. Bað Valgerður Bjarnadóttir forseta meðal annars „um að koma fram fyrir hönd okkar allra og reyna að ala þennan mann upp.“
Þegar þingmaður Framsóknarflokksins, Vigdís Hauksdóttir steig í pontu kvað þó við annan tón. „Hér hafa fallið gríðarlega þung orð hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Það liggur fyrir að hæstvirtur forsætisráðherra tjáði sig um sannleikan,“ sagði Vigdís. „Ég vil minna á það að þessi hópur skrifaði undir trúnaðaryfirlýsingu, en þá gerist það hér að Árni Páll kemur hér upp og játar það sem hæstvirtur forsætisráðherra var að segja, að hann hafi tjáð sig um það sem fram fór í hópnum,“ hélt hún áfram. „Játning liggur fyrir!“
Guðmundur Steingrímsson tók þá til máls. „Ég upplifi það þannig að flestir hér á þingi gætu starfað saman og unnið að eins flóknu úrlausnarefni og afnám gjaldeyrishafta er. En það er eitt vandamál og það verður að glíma við það. Og það vandamál er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.“
Skömmu seinna kom forsætisráðherra aftur í salinn. Vísaði hann ásökunum þingmanna stjórnarandstöðunnar á bug og sagði þá jafnframt misnota dagskrárliðinn þar sem ræða átti fundarstjórn forseta þingsins. Sagði forseti í kjölfarið umræðunum lokið.