„Nokkuð fyrirsjáanleg niðurstaða“

Frá dómuppkvaðningu í Aurum-málinu síðasta sumar.
Frá dómuppkvaðningu í Aurum-málinu síðasta sumar. mbl.is/Þórður

„Mér sýndist þetta vera nokkuð fyrirsjáanleg niðurstaða. Það er samt náttúrlega aldrei gott þegar að meðferð mála dregst á langinn af svona ástæðu,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, en sýknu­dóm­ur yfir fyrr­ver­andi stjórn­end­um og eig­end­um Glitn­is í Aur­um-mál­inu svo­nefnda var ómerkt­ur í Hæsta­rétti í dag.

Féllst rétt­ur­inn á að meðdóm­andi í Héraðsdómi Reykja­vík­ur hafi verið van­hæf­ur vegna tengsla við sak­born­ing í Al Thani-mál­inu. Málið verður því í aft­ur tekið fyr­ir í héraðsdómi.

Á erfitt með að sætta sig við niðurstöðuna

Jón Ásgeir Jó­hann­es­son, Lár­us Weld­ing, Bjarni Jó­hann­es­son og Magnús Arn­ar Arn­gríms­son voru á síðasta ári sýknaðir í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í mál­inu en sak­sókn­ari krafðist þess að Hæstirétt­ur ómerkti dóm­inn vegna van­hæf­is meðdóm­anda. Meðdóm­andinn, Sverr­ir Ólafs­son, er bróðir at­hafna­manns­ins Ólafs Ólafs­son­ar sem var sak­felld­ur í Al Thani-mál­inu í mars. Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, lýsti yfir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna.

„Ég á mjög erfitt með að sætta mig við hana. Það liggur alveg fyrir að meðdómandinn, sem er talinn vanhæfur, hafði fulla ástæðu til þess að líta svo á að sérstakur saksóknari færi með rangt mál þegar hann hélt því fram að hann hefði ekki vitað af bróðurtengslum meðdómandans við Ólaf Ólafsson,“ segir hann.

Segir málið vera einsdæmi

Í dómi Hæsta­rétt­ar kem­ur fram að um­mæli Sverr­is í fjöl­miðlum eft­ir að dóm­ur héraðsdóms féll gæfu til­efni til að draga með réttu í efa að hann hefði verið óhlut­dræg­ur í garð ákæru­valds­ins fyr­ir upp­kvaðningu héraðsdóms. Í þessu ljósi taldi Hæstirétt­ur að ómerkja yrði dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur ásamt meðferð máls­ins frá upp­hafi aðalmeðferðar. Vísaði hann því aft­ur til Héraðsdóms Reykja­vík­ur til meðferðar.

„Það liggur fyrir að reyndasti sakadómari landsins hefur gefið opinbera yfirlýsingu um að sérstakur saksóknari hafi hringt til hans og gert honum grein fyrir þessum bróðurtengslum og rætt við hann um þau. Niðurstaða sérstaks saksóknara hafi orðið sú, eftir þær samræður, að hann hafi fallist á að þetta væri ekki vanhæfa og að hann myndi ekki gera neinar athugasemdir við hæfi meðdómandans,“ segir Gestur.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, segir málið einsdæmi..
Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, segir málið einsdæmi.. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert