Opnunartími leikskóla í Reykjavík verður styttur frá og með 1. ágúst. Frá þeim tíma geta börn dvalið í leikskólunum til kl. 17 en ekki 17.30 eins og verið hefur.
Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur sendi foreldrum leikskólabarna tilkynningu þessa efnis í gær. Skúli Helgason, formaður skóla-og frístundaráðs, segir þessa breytingu vera sparnaðaraðgerð af hálfu borgarinnar. „Við þurftum að finna peninga til að fara af stað með nýtt verkefni sem okkur er mjög annt um. Kallast það námsleyfi í leikskóla og gengur út á að fjölga fagmenntuðu starfsfólki á leikskólum borgarinnar,“ sagði Skúli í samtali við mbl.is. Sagði hann einnig að lengi hefði verið kallað eftir þessu verkefni. „Okkur finnst þetta vera rétti tíminn til að gera þetta. Þannig geta ómenntaðir leikskólakennarar fengið styrki til þess að fara í nám.“ Borgin mun verja 20 milljónum króna í verkefnið.
Skúli benti á að þessi hálftími, frá 17.00 - 17.30, hafi kostað borgina 9 milljónir króna árlega. „Það eru afar fáir foreldrar sem hafa nýtt sér þessa þjónustu. Við erum í raun að borga leikskólanum til að vera til taks fyrir foreldra og þeir eru ekki margir.“
Skúli segir að skóla- og frístundasviði hafi ekki borist kvartanir frá leikskólum eða foreldrum vegna þessara fyrirhuguðu breytinga. „Sjálfur hef ég reyndar fengið eitt bréf, það var eitt foreldri sem hafði samband við mig vegna þessa.“ Samkvæmt Skúla nýta 3 af 6000 leikskólabörnum í Reykjavík sér þennan auka hálftíma að fullu. „Auk þess eru 17 börn til viðbótar sem eru skráð til 17.15.“
En gæti það ekki reynst púsluspil fyrir foreldra sem vinna til 17.00 að sækja börnin sín í leikskólann? „Við reyndum að tilkynna þetta með góðum fyrirvara til þess að fólk gæti gert viðeigandi ráðstafanir. Ég þekki þetta sjálfur, er með barn á leikskóla og maður þarf stundum að leysa það með allskonar tilfæringum. Það er bara eitthvað sem þarf að gera. Mér finnst eins og fólk sýni þessari aðgerð skilning, viðbrögðin hingað til hafa verið þannig,“ sagði Skúli Helgason.