Viðskiptaráð segir þingflokk Samfylkingarinnar hafa farið með fjölmargar rangfærslur í ályktun sem flokkurinn sendi frá sér í gær í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður.
Auk fjölmargra rangfærslna sé orðalag ályktunarinnar á þann veg að alið sé á óvild í sem mestum mæli og þannig dregið úr líkum á lausn kjaradeila.
Í tilkynningu Viðskiptaráðs segir meðal annars að jöfnuður tekna hafi aukist ekki minnkað, líkt og haldið er fram. Gini-stuðullinn, sem mælir samþjöppun tekna, stóð í 30 stigum árið 2009 en hafi lækkað niður í 24 stig árið 2013.
Einnig segir að lægstu laun hafa hækkað umfram önnur laun jafnt og þétt undanfarin 25 ár, þvert á það sem Samfylkingin fullyrrðir. Kaupmáttur lágmarkslauna hafi aukist um 85% frá árinu 1990. Á sama tíma hafi kaupmáttur almennra launa aukist um 40%.
„Barnafólk með lágar tekjur færi verst út úr hærri verðbólgu og hækkun verðtryggðra lána. Barnafólk er með mun hærri vaxtabyrði af lánum en aðrir, eða 16% af ráðstöfunartekjum miðað við 11% hjá barnlausum (30-60 ára). Þessi munur er enn meiri hjá þeim tekjulægstu,“ segir einnig í tilkynningunni.