Vill ekki þurfa að drepa dýrin

Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls.
Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls. mbl.is/Árni

„Þetta er erfið staða, sérstaklega þar sem þetta bitnar á þeim sem eru alls ekki í kjaraviðræðum,“ segir Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls. Sótt hefur verið um þrjár undanþágubeiðnir vegna verkfalls dýralækna fyrir hönd fyrirtækisins en ekki má slátra dýrum nema dýralæknir sé viðstaddur. Tveimur þeirra hefur verið hafnað en beðið er eftir afgreiðslu þriðju beiðnarinnar.

Sveinn Vilberg segir að undanþágunefndin hafi í svörum sínum bent á að aðrar leiðir séu færar til að fækka fuglum í húsunum en slátrun. Ekki var þó tilgreint nánar hvaða leiðir er átt við. Að jafnaði er um 100 þúsund kjúklingum slátrað í viku hverri hér á landi.

Eftir því sem líður á verkfallið verður sífellt þrengra um fuglana og þarf því að grípa til aflífunar vegna dýraverndunarsjónarmiða. Það virðist þó vera hægara sagt en gert.

Leiðin er algjörlega ófær

Sveinn Vilberg segir í samtali við mbl.is að hægt sé að nota kolsýru til að aflífa fuglana og því næst sé hann urðaður. Eftir að hafa kannað málið í gær kom í ljós að fjóra til sex daga tekur að fá gasið sem hann þarf fyrir hverja þjónustudeild hjá Matfugli. „Þetta er leið sem er algjörlega ófær þar sem vegna þess að afkastagetan er ekki til staðar í landinu,“ segir Sveinn Vilberg.

Verði undanþágan sem Matfugl skilaði inn í gær ekki samþykkt er ljóst aflífa þarf dýrin með kolsýru en gasið mun þó ekki berast fyrr en miðja næstu viku.

„Ég sendi undanþágu í gær og upplýsti að þessi leið væri ófær sökum þess að ekki væri hægt að afgreiða kjúklingabændur um þetta magn,“ segir Sveinn Vilberg en honum telst til að kjúklingabændur landsins þurfi um 36 tonn af gasi á viku svo hægt sé að aflífa þann fjölda fugla sem þarf til að ekki sé of þröngt um dýrin á búunum. Ekki eru til gaskútar fyrir þetta magn, segir  hann. 

Ekki hægt að draga úr framleiðslu

Honum hugnast ekki að aflífa dýrin og henda verðmætum. „Þetta er leið sem enginn sem elur dýr vill fara. Maður vill að þau lifi sómasamlega á meðal þau lifa. Að drepa dýrin sín svona og setja þau í jörðina, það er ekki eitthvað sem okkur finnst áhugavert.“

Ekki verður dregið úr framleiðslu hjá Matfugli vegna verkfallsins sem er ótímabundið. „Það sem ætti að slátra í þessari viku var sett í gang í útungunarvélum fyrir átta vikum,“ segir Sveinn Vilberg og bendir á að ekki sé hægt að draga úr framleiðslu með átta vikna fyrirvara upp á von og óvon.

Frétt mbl.is: Skortur á kjöti ekki gild ástæða

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert