Íslenska þjóðin hoppar úr níunda og upp í annað sætið yfir hamingjusömustu þjóðir heim í árlegri samantekt Sustainable Development Solutions Network fyrir Sameinuðu þjóðirnar.
Sviss trónir á toppi listans en eins og áður segir er Ísland í öðru sæti. Danmörk og Noregur fylgja í humátt á eftir, þá Kanada og Finnland og loks eru það Holland, Svíþjóð, Nýja Sjáland og Ástralía sem skipa sér í neðstu sæti topp tíu listans.
Í fimmta neðsta sæti listans er Afganistan, þar á eftir koma Rúanda og Benín. Þriðju minnstu lífshamingjunnar njóta íbúar Sýrlands, þá íbúar Búrúndí og lokst eru það íbúar Tógó sem reka lestina.
Hamingja þjóða er ákvörðuð útfrá ýmsum þáttum. Meðal annars er hún metin útfrá vergri þjóðarframleiðslu, félagslegum stuðningi, lífslíkum, einstaklingsfrelsi, gjafmildi og upplifun af spillingu.
Í skýrslunni má lesa að Íslendingar halda ágætlega í við Svisslendinga og eru í raun aðeins um 26 stigum frá fyrsta sætinu. Íslendingar virðast áberandi gjafmildari en Svisslendingar en hinsvegar virðast fleiri upplifa spillingu hér á landi en í Sviss.
Skýrsluna má lesa hér.