Skátafélögin í Reykjavík héldu sameiginlegan sumarfögnuð í Hallgrímskirkju í dag þar sem gestir glöddust, sungu saman og horfðu til sumarsins. Skátar hafa mörg undanfarin ár verið með viðburði á Sumardaginn fyrsta og er sumarið boðið velkomið víða um land.
Sum skátafélög bjóða í dag upp á fjölskylduskemmtanir með leiktækjum, skemmtiatriðum og kaffisölu meðan önnur láta sér nægja að koma saman með lágstemmdari hætti. Samkomur og skemmtanir eru öllum opnar. Mjög víða er farið í skrúðgöngu þangað sem skemmtidagskrá tekur við.
Einstök félög í Reykjavík eru með viðburði og ýmis gleðilæti í sínum hverfum. Skátafélagið Árbúar var með skrúðgöngu frá Árbæjarlaug að Árbæjarkirkju í morgun, en skemmtidagskrá við skátaheimilið í Hraunbæ 123 frá 13.00-15.00. Skátafélagið Landnemar býður upp á skemmtidagskrá á Klambratúni frá 14.00-16.00. Skátafélagið Hamar er með skrúðgöngu frá Spönginni að Rimaskóla kl. 11:30. Hátíðarhöld við Rimaskóla eftir skrúðgöngu, kynning á sumarstarfinu og sprell. Skátafélagið Garðbúar gengur fylktu liði frá Grímsbæ að Bústaðakirkju kl. 13.00. Skemmtidagskrá verður síðan í Víkinni frá 14.00-16.00. Skátafélagið Ægisbúar var með skrúðgöngu kl. 11.00 frá Hagaskóla að Frostaskjóli þar sem sumarhátíð hefst kl. 11:15. Skátafélagið Skjöldungar býður upp á skemmtidagskrá við frístundaheimilið Dalsel í Laugardal kl. 11.00-13.00.
Þá verður skátafélagið Mosverjar í Mosfellsbæ með skrúðgöngu frá Bæjartorginu kl. 13.00, en gengið verður að Lágafellsskóla þar sem fjölskylduskemmtun með leiktækjum, pylsugrilli og vöfflusölu fer fram.
Skátafélagið Vífill í Garðabæ er með skátamessu í Vídalínskirkju kl. 13.00. Skrúðganga er að henni lokinni að Hofstaðaskóla þar sem fjölskylduskemmtun með leiktækjum, skemmtiatriðum og kaffisölu fer fram frá kl. 14.00
Skátafélagið Kópar í Kópavogi bauð til helgistundar í Hjallakirkju kl. 11.00. Skrúðganga frá Digraneskirkju kl. 13.30 að Fífunni en þar verður skemmtidagskrá frá 14.00-16.00
Skátafélagið Hraunbúar í Hafnarfirði tekur þátt í skátamessu í Víðistaðakirkju kl. 13.00. Skrúðganga frá Víðistaðakirkju kl. 13:45 að Thorsplani, þar sem verður skemmtidagskrá frá 14.00 með skemmtikröftum, útileikjum, kassaklifri og Candy flossi.
Skátafélag Akraness var með skrúðgöngu í morgun frá skátaheimilinu Háholti 24 að Akraneskirkju þar sem Skátamessa hófst kl. 11.00.
Skátafélagið Örninn á Grundarfirði tekur þátt í skátamessu í Grundarfjarðarkirkju og stórleikurinn „Mestu naglarnir“ í íþróttahúsi eftir messu.
Skátafélagið Klakkur á Akureyri hélt skrúðgöngu kl. 10.40 frá Giljaskóla að Akureyrarkirkju þar sem Skátamessa hófst kl. 11.00. Skátar hittast svo að Hömrum þar sem boðið verður upp á hádegisverð.
Skátafélagið Elífsbúar á Sauðárkróki fór í skrúðgöngu kl. 10.30 frá Bóknámshúsi að Sauðárkrókskirkju þar sem Skátamessa hófst kl. 11.00.
Skátafélagið Fossbúar á Selfossi verður með skrúðgöngu kl. 13.00 frá Hafnarplani um Austurveg, Reynivelli, Engjaveg og Tryggvagötu að Glaðheimum. Skemmtidagskrá og vöfflukaffi er við Glaðheima, skátaheimili Fossbúa í framhaldi af skrúðgöngunni.
Skátafélagið Strókur í Hveragerði fór í skrúðgöngu kl. 10.30 frá skátaheimilinu að Hveragerðiskirkju þar sem Skátamessa hófst kl. 11.00
Skátafélagið Heiðarbúar í Keflavík var með skrúðgöngu kl. 11.00 frá skátaheimilinu Vatnsnesvegi 101 að Keflavíkurkirkju þar sem Skátamessa hófst kl. 11:30. Kaffisala í skátaheimilinu frá kl. 14.00-16.00