„Mér fannst þetta ganga mjög vel og ég er mjög ánægð með þetta. Það var alveg frábært að heyra í sem flestum til þess að fá sem flest sjónarmið,“ segir Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, um viðburðinn #OccupySaga sem Ungir jafnaðarmenn stóðu fyrir í dag. Snerist viðburðurinn um það að Ungi Jafnaðarmenn hvöttu sem flesta til þess að hringja inn í símatíma stöðvarinnar í dag til þess að taka upp hanskann fyrir minnihlutahópa á borð við hinsegin fólk og innflytjendur „sem verða fyrir reglulegu aðkasti á stöðinni,“ eins og fram kemur á síðu viðburðarins á Facebook.
Snýst málið að miklu leyti um viðbrögð hlustenda Útvarps Sögu við fregnum þess efnis að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi ákveðið að tekin verði upp hinsegin fræðsla í grunnskólum bæjarfélagsins. Arnþrúður segir að þær upplýsingar sem borist hafa frá Hafnarfjarðarbæ í kjölfarið hafi verið mjög óljósar. „Það fara út í samfélagið einhverjar misvísandi fréttir sem við byrjum að heyra af í gegnum okkar hlustendur. Þannig fáum við vitneskju um þetta,“ segir Arnþrúður.
„Eins og við er að búast í málum af þessum toga sem eru mjög viðkvæm eru fyrstu viðbrögð fólks mjög misjöfn og þau endurspeglast svo sannarlega í símatímum Útvarps Sögu,“ segir Arnþrúður en símatíminn er á hverjum degi frá klukkan 9 til 12. Að sögn Arnþrúðar koma þar fram mismunandi skoðanir og oft gagnrýni á atburði líðandi stundar. Hún segir atburðinn í dag, þar sem að Ungir Jafnaðarmen hvöttu fólk til þess að hringja inn, mikið fagnaðarefni.
„Það er svo mikilvægt að þeir sem hafa eitthvað til málanna að leggja í þessu máli láti einmitt í sér heyra. Það gerðu þeir í dag og það var virkilega góð umræða þar sem fram komu mismunandi sjónarmið,“ segir Arnþrúður.
Í tilkynningu Ungra Jafnaðarmanna á Facebook síðu atburðarins kemur fram að ákveðinn hlustandi Útvarps Sögu hafi hringt inn í kjölfar umræðunnar í dag og beðist afsökunar á ummælum sínum sem féllu fyrr í vikunni. Arnþrúður staðfestir það og fagnar því. Hún segir að það sýni einnig mikilvægi þess að bæjarstjórn Hafnarfjarðar útskýri þessa stóru ákvörðun frekar. „Það var ekki haldinn blaðamannafundur og þetta var ekkert kynnt fyrir bæjarbúum. Þá koma eðlilega upp einhverjar upphrópanir því fréttirnar af þessu eru svo misvísandi.“
Aðspurð hvort að bæjarstjórn Hafnarfjarðar þurfi nú að útskýra þessa ákvörðun frekar segir Arnþrúður það mjög áríðandi. „Einnig vegna þess að í raun er það Námsmatstofnun og Menntamálaráðuneytið sem leggur upp með fagfólki hvað skal vera kennt í skólum landsins. Ef að sveitastjórnir á Íslandi hafa einhverjar hugmyndir og telja að eitthvað málefni eigi nauðsynlega að fara inn í námsefni skólanna þá er alveg sjálfsagt að því sé komið til Námsmatsstofnunnar eða ráðuneytisins,“ segir Arnþrúður. „En þegar þeir eru að ákveða eitthvað svona einir og sér þá er grundvallarkrafa að þeir efni til blaðamannafundar og kynni ákvörðunina til þess að koma í veg fyrir mistúlkanir og rangar hugmyndir um það sem þarna er á ferðinni.“
„Hatursorðræða lifir góðu lífi á Útvarpi Sögu. Þáttarstjórnendur leyfa henni að grassera og taka í mörgum tilvikum undir hana. Sendum Útvarpi Sögu skýr skilaboð um að hatursorðræða sé ekki liðin í okkar samfélagi,“ segir á Facebook síðu atburðarins. Arnþrúður segist ekki sammála þessu.
„Ég er náttúrulega engan veginn sammála þessu. Hér ríkir engin hatursorðræða. Við erum einfaldlega að standa vörð um bæði skoðana- og tjáningarfrelsi. Það felur það í sér að hér koma fram skiptar skoðanir og fólk geti haft sínar skoðanir um hvort að þetta sé hatur eða ekki. Það er fjöldinn allur sem hingað hringir og fjölmargar mismunandi skoðanir sem birtast,“ segir Arnþrúður. Hún segir að tekið sé á móti um 40 til 50 símtölum á dag í símatímum Útvarps Sögu. „Það má eiga von á því að helmingurinn sé með skoðanir sem hinn helmingurinn er ekki ánægður með. En þetta er nú þannig það er skylda fjölmiðla og stefna og jafnframt skylda Útvarps Sögu að upplýsa fólk um það samfélag sem það raunverulega býr í, ekki einhverja glansmynd.“
„Ég veit að það eru mjög margir búnir að sitja við símann og reynt að ná inn í morgun,“ segir Eva Indriðadóttir, formaður Ungra Jafnaðarmanna í samtali við mbl.is fyrr í dag. „Það virðist vera að ekkert rosalega margir hafi náð inn, ég held að stöðin sé bara með eina línu. En það náðu margir inn og umræðan hefur snúist í mismuandi áttir en allt að einhverju leyti að hinsegin fræðslu,“ segir Eva og bætir við að skilningurinn á málefninu virðist vera lítill hjá útvarpsstöðinni. „En fulltrúar okkar hliðar, þar sem eru að tala fyrir opnari umræðu og gegn hatursorðræðunni, hafa gert sitt besta til þess að opna umræðuna og auka skilninginn.“
Eva segir að margir hafi hringt inn og talað gegn því sem hópurinn á vegum Ungra Jafnaðarmanna er að berjast fyrir. „Ég hlusta nú ekki reglulega á Útvarp Sögu en þetta virðist hafa verið fólk sem hringir reglulega í þáttinn.“
Að sögn Evu voru þáttastjórnendur símatímans, sem heitir Línan laus, undirbúin fyrir innhringingar hópsins í dag. Arnþrúður stjórnaði seinni hluta þáttarins en Pétur Gunnlaugsson fyrri hlutanum. Í upphafi þáttarins hafi Pétur nefnt „mótmælin“ eins og hann kallaði þau og að sögn Evu hélt Arnþrúður um tuttugu mínútna langt erindi um frelsi fjölmiðla þegar hún tók við hljóðnemanum. Jafnframt var birt skoðanakönnun á heimasíðu Útvarps Sögu í vikunni þar sem fólk var spurt hvort það hafi hugsað sér að taka þátt í „símamótmælum“ gegn símaumræðu á stöðinni.
Eva á erfitt með á áætla hversu margir hafi tekið beint þátt í viðburðinum í dag en segir augljóst að margir vilji styðja málefnið. „Miðað við umræðuna inn á viðburðnum eru heilmargir sem vilja leggja þessu málefni lið og sýna stuðning. Hatursorðræða eins og sú sem hefur birst á Útvarpi Sögu, á ekki að eiga sér stað í samfélaginu okkar, þetta er eitthvað sem snertir okkur öll.“
Aðspurð hvort að Ungir Jafnaðarmenn ætli að standa fyrir samskonar viðburði aftur segir Eva það mögulegt. „Ég sé að það hafa skapast umræður inn á viðburðnum en ekkert hefur verið ákveðið. En með þessum viðburði er verið að opna fyrir umræðu sem hefur ekki verið eins opin áður.“
Hún segir það áhyggjuefni að Útvarp Saga sé eins vinsæll miðill og raun ber vitni. „Vissulega er það áhyggjuefni að það sé til samfélag sem að ýtir undir svona hatursfulla umræðu og leyfir henni að grassera. Sérstaklega í ljósi þess að þetta er fjölmiðill sem leyfir þessu að viðgangast.“
Fyrri fréttir mbl.is:
Hinsegin fræðsla í hafnfirska skóla