Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir það hafa verið með öllu ótímabært að gefa út framkvæmdaleyfi og hefja framkvæmdir á svæði Valsmanna við Hlíðarenda. Þetta kemur fram í bréfi hennar til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra en Kjarninn birti bréf Ólafar.
Undir bréfið, sem dagsett er 17. apríl síðastliðinn, skrifar einnig Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og segir þar að ekki liggi fyrir niðurstaða verkefnisstjórnar um könnun á flugvallarkostum og að Samgöngustofa hafi enn til umfjöllunar möguleg áhrif lokunar flugbrautar 06/24, eða neyðarbrautarinnar eins og hún er yfirleitt kölluð. Brautinni verði því ekki lokað á meðan niðurstöður nefndarinnar liggja ekki fyrir eða aðrar ákvarðanir teknar sem leiða til þess að flugbrautin verði tekin úr notkun.
Framkvæmdir á svæðinu hófust hinn 13. apríl sl. og eru þær undanfari uppbyggingar og byggingarframkvæmda á svæðinu, sem ekki getur orðið af að óbreyttum skipulagsreglum flugvallarins, segir í bréfinu en gert er ráð fyrir að 800 til 850 íbúðir rísi á svæðinu á næstu sex árum.
Frétt mbl.is: Framkvæmdir hafnar á Hlíðarenda
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir öll skilyrði hafa verið uppfyllt þegar framkvæmdaleyfið var veitt.
„Ég veit ekki betur en að borgin sé í fullum rétti til að skipuleggja sitt landsvæði og veita framkvæmdaleyfi,“ segir hann og bætir við að framkvæmdirnar á þessum stað hafi ekki neitt með flugbrautina að gera til að byrja með. Eins segir hann mjög mikilvægt að hafa það í huga að það sé Reykjavíkurborg sem fari með skipulagsvaldið og veiti framkvæmdaleyfi.
„Valsmenn ætla þarna að byggja tvær byggingar til að byrja með á svæði sem er fjærst flugbrautinni. Það er þó nokkuð í að þessar framkvæmdir muni hafa einhver áhrif á þessa flugbraut, sem er þó ekki til lengur á skipulagi,“ segir hann.