Ræstingafólki sagt upp vegna hagræðingar

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi.
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Sumarið tók ekki vel á móti ræstingarkonunum í Fjölbrautaskóla Vesturlands, því í morgun var þeim afhent uppsagnarbréf,“ segir í frétt á vef Verkalýðsfélags Akraness. Í bréfinu kom fram að vegna hagræðingar í rekstri og endurskipulagningar á ræstingarmálum skólans væri þeim sagt upp störfum.

 „Það er óhætt að segja að það hafi skollið á suðvestan stórhríð í fangið á þessum mætu konum sem hafa séð um að ræsta skólann í tugi ára en sú sem er með lengstan starfsaldur er búin að starfa við ræstingarnar í uppundir 30 ár. Flestar eru þær með starfsaldur frá 10 árum og upp í 20 ár,“ segir í umfjöllun Verkalýðsfélags Akraness um málið.

Verður að mæta af fullri hörku

„Enn og aftur ríða snillingar hagræðingar fram og í þessu tilfelli er það nýráðinn skólameistari skólans. Hún telur eins og svo margir aðrir stjórnendur í íslensku atvinnulífi og stofnunum að mestu sparnaðarmöguleikarnir liggi í kjörum ræstingafólks. Þessum harðneskjulegu aðgerðum verður ekki lýst í fáum orðum - að enn og aftur sé ráðist að kjörum þeirra sem síst skyldi,“ segir í fréttinni og svo segir:

Það er alveg magnað að á sama tíma og samið hefur verið við kennara um umtalsverðar kjarabætur þá skuli ráðist að kjörum ræstingarfólks og kvartað yfir að launakostnaður stofnunarinnar hafi hækkað mikið. Maður spyr sig því, ekki á að lækka launakostnað Fjölbrautaskóla Vesturlands með því að skerða launakjör þeirra sem á lökustu kjörunum eru?

Verkalýðsfélag Akraness mótmælir þessari aðför að kjörum þessara starfsmanna harðlega og þetta sýnir svo ekki verður um villst að svona miskunnarlaust ofbeldi þurfa mörg kvenna- og lágtekjustörf að þola og því verður að mæta af fullri hörku.“

Í frétt Verkalýðsfélagsins kemur fram að þessar umræddu konur hafi í tvígang verið tilbúnar til að gefa eftir af sínum kjörum til að mæta hagræðingarþörf skólans. „Núna bregður hinsvegar svo við að nýráðinn skólameistari segir þeim öllum upp og félagið hefur vitneskju um að leitað hafi verið til ræstingarfyrirtækja til að taka verkið að sér. Sú saga sem er í kringum þessi blessuðu ræstingafyrirtæki er þyrnum stráð enda liggur fyrir að kjörin rýrna gríðarlega og álagið eykst þegar ræstingarfyrirtækin taka störfin að sér eins og frægt dæmi á Landsspítalanum sannar.“

Verkalýðsfélag Akraness mun skoða hvað er hægt að gera varðandi þetta mál en „siðferðislega liggur ábyrgðin hjá skólameistaranum og það að hafa brjóst í sér til að ráðast á kjör þessara kvenna er formanni algjörlega óskiljanlegt. Eins og áður sagði er það lenska hjá stjórnendum þegar kemur að því að leita hagræðingar að líta til ræstingar, mötuneytis, þvottahúss og slíkra láglaunastarfa en þessu sama fólki dettur ekki í hug að kíkja á æðstu stjórnendur til að leita hagræðingar. Hafi skólameistarinn skömm fyrir þessa framgöngu og skorar formaður á hann að draga þessar uppsagnir tafarlaust til baka og leita annarra leiða en að fara í vasa íslensks lágtekjufólks til hagræðingar.“     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert