Skoðanir Héðins höfðu ómálefnaleg áhrif

Héðinn Unnsteinsson áritar bók sína Vertu úlfur
Héðinn Unnsteinsson áritar bók sína Vertu úlfur Eva Björk Ægisdóttir

Skoðanir Héðins Unnsteinssonar höfðu ómálefnaleg áhrif á innlagnarferli hans á Sjúkrahúsið á Akureyri árið 2008. Þetta kemur fram í bréfi frá embætti landlæknis til Héðins dagsett 16. apríl sl. Í bréfinu, sem mbl.is hefur undir höndum, kemur jafnframt fram að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1998 er óheimilt að mismuna sjúklingum á grundvelli skoðana sinna.

„Það er niðurstaða landlæknis eftir að hafa tekið mál þitt aftur til skoðunar að mistök hafi átt sér stað við heilbrigðisþjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007,“ segir í bréfi landlæknis til Héðins.

Segir jafnframt að að landlæknir muni fylgja því eftir við Sjúkrahúsið á Akureyri að gæta sértaklega að því að mismuna ekki sjúklingum. 

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, að hann ætti eftir að sjá bréf landlæknis. Hann mun ekki tjá sig um niðurstöðu landlæknis fyrr en eftir að hann sér bréfið.

Hér má sjá viðtal Morgunblaðsins við Héðinn sem birtist fyrr í mánuðinum í kjölfar útgáfu bókar hans Vertu úlfur, þar sem hann seg­ir frá reynslu sinni af geðhvörf­um.

Frétt mbl.is: Gagnrýnin reyndist dýrkeypt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert