Um klukkan eitt í nótt hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afskipti af ungum manni við Stjórnarráð Íslands. Maðurinn hafði verið að kasta af sér vatni á hús Stjórnarráðsins og verður kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt. Þá neitaði maðurinn að gefa upp nafn og kennitölu og var því handtekinn. Maðurinn gaf lögreglu persónuupplýsingar er hann var kominn í lögreglubifreiðina og var þá látinn laus.
Aftur dróg til tíðinda í miðbænum um klukkan þrjú en þá var maður handtekinn í Austurstræti eftir að hafa verið í slagsmálum við dyraverði. Maðurinn var í mjög annarlegu ástandi og var hann vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast. Skömmu seinna voru höfð afskipti af manni í Austurstræti sem grunaður var um vörslu fíkniefna og laust eftir klukkan fjögur voru afskipti höfð af manni í Hafnarstræti þar sem hann var ofurölvi og ósjálfbjarga. Maðurinn er vistaður í fangageymslu meðan hann sefur úr sér vímuna.