Margir fræddust um brunann mikla

Margir fylgdust með þegar slökkviliðsmenn sprautuðu vatnsbogum úr brunaslöngum í …
Margir fylgdust með þegar slökkviliðsmenn sprautuðu vatnsbogum úr brunaslöngum í Reykjavíkurtjörn. mbl.is/Júlíus

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir marga hafa mætt á opnun sýningar um brunann mikla árið 1915 en sýningin var opnuð í dag. Hundrað ár eru liðin frá eldsvoðanum í miðbæ Reykjavíkur, en þá brunnu 12 hús við Austurstræti og Hafnarstræti og tveir menn létu lífið.

Samhliða opnun sýningarinnar, sem stendur fram á þriðjudag, var gömlum slökkvibílum stillt upp við Austurvöll ásamt því að boðið var upp á leikræna leiðsögn um svæðið sem brann.

Jón segir að ýmislegt áhugavert hafi verið rifjað upp. Til að mynda auglýstu verslunarmenn sem voru með starfsemi í húsunum sem brunnu eftir því hjá skuldurum sínum hversu mikið þeir skulduðu þeim þar sem skuldakladdinn brann með húsunum. Þá veltu menn því upp í dag hvernig skipulag á svæðinu sem brann væri í dag ef bruninn hefði ekki orðið.

Elsti slökkvibíllin er frá árinu 1932.
Elsti slökkvibíllin er frá árinu 1932. mbl.is/Júlíus

Jón segir það aðdáunarvert að tekist hafi að ráða niðurlögum eldsins á sínum tíma með þann búnað og þjálfun sem slökkviliðsmenn höfðu í þá daga, en eins og gefur að skilja er tækjakostur slökkviliðsins mun betri í dag en hann var fyrir hundrað árum síðan.

„Elsti bíllinn er frá 1932 þannig að á þeim tíma sem bruninn á sér stað þá voru engir bílar heldur bara kerrur sem voru dregnar af hestum eða ýtt fram með handafli,“ segir hann.

Aðspurður hvort stór bruni sem þessi geti endurtekið sig í dag segir hann að það sé auðvitað alltaf sá möguleiki fyrir hendi, og að ekki þurfi að leita lengra en aftur til síðasta sumars þegar stórbruni varð í Skeifunni.

„En timburhúsin eru ekki til staðar lengur og tækjafloti til að glíma við þetta er allt annar. Brunavarnirnar hafa stökkbreyst frá þessum tíma,“ segir Jón. Hann bætir við að þjálfun og uppbygging slökkviliðsins hafi líka mikið að segja. „Ég held að við séum bara mjög vel í sveit sett með það, en það má aldrei slaka á,“ segir hann.

Margir mættu á Austurvöll í dag til þess að fræðast …
Margir mættu á Austurvöll í dag til þess að fræðast um eldsvoðann sem varð árið 1915. mbl.is/Júlíus
Gamlir slökkvibílar voru til sýnis.
Gamlir slökkvibílar voru til sýnis. mbl.is/Júlíus
Leikarar leiddu áhugasamir um slóðir brunans mikla.
Leikarar leiddu áhugasamir um slóðir brunans mikla. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka