Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir stöðuna í kjaradeilunum sem nú rísa hver af annarri grafalvarlega. Við stöndum frammi fyrir miklum vanda sem þjóð og erfitt verði að finna lausn sem ekki hefur í för með sér verðbólgu.
Spurður hvað sé til ráða svarar Pétur: „Að finna óhefðbundnar lausnir. Við blasir að mörg fyrirtæki koma ekki til með að geta staðið undir mikilli hækkun lægstu launa þar sem þau byggja á lágum launum. Það þýðir að létta þarf undir með þeim til að koma í veg fyrir mikið atvinnuleysi meðal þeirra sem hafa lægstu launin. Þá kæmi til greina að hafa tryggingargjaldið mismunandi eftir þeim tekjum sem það er lagt á. Það er að segja að lægstu launin yrðu niðurgreidd af ríkissjóði. Þetta er stílbrjótur og ljót aðgerð – en menn leysa ljóta stöðu með ljótum aðgerðum. Þetta væri fyrsta vers, annað vers væri það að taka til baka launahækkunina sem veldur verðbólgunni með skyldusparnaði. Það er að skylda menn til að spara hluta af sínum launahækkunum, til dæmis launahækkunum umfram 4% á ári. Þannig má draga úr getu þeirra til að kaupa og fjárfesta. Það er líka ljót aðgerð en líklega nauðsynleg.“
– Eru þessir samningar þá ábyrgðarleysi af hálfu lækna?
„Annaðhvort er þetta ábyrgðarleysi eða svona mikil vanþekking á áhrifum kjarasamninga. Dæmi nú hver fyrir sig.
Þá komum við inn á verkfallsréttinn. Í árdaga var hann heilagt vopn sem beindist gegn fyrirtækinu sem menn unnu hjá. Farið var í verkfall til að valda fyrirtækinu sem menn unnu hjá skaða og þvinga það þannig til að borga hærri laun. Síðan uppgötva menn um allan heim að það er mikið sniðugra að valda þriðja aðila tjóni. Hvort sem það eru sjúklingar, ferðamenn eða einhverjir aðrir. Það er einmitt þetta sem er að gerast núna og mín kenning er sú að þeir sem valda þriðja aðila mestu tjóni eru með hæstu launin, flugmenn, læknar og aðrir sem komast af einhverjum ástæðum í oddastöðu til að valda tjóni. Þessir aðilar geta haldið heilu atvinnugreinunum í gíslingu og valdið gífurlegu fjárhagstjóni með sínum verkfallsaðgerðum. Er það þetta sem menn sáu fyrir sér að verkfallsrétturinn myndi leiða til?“
Ítarlega er rætt við Pétur H. Blöndal í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.