Vilja minnka hlut Íslands

Tillögu ESB og Færeyinga var algjörlega hafnað.
Tillögu ESB og Færeyinga var algjörlega hafnað. mbl.is/Friðþjófur Helgason

Færeyingar og Evrópusambandið (ESB) leggja til að hlutdeild Íslands í kolmunnaveiðinni í N-Atlantshafi á þessu ári minnki úr 17,63% í 4,8%. Búið er að úthluta íslenskum skipum kolmunnakvóta á grundvelli þess að hlutur okkar sé 17,63% og skipin eru byrjuð að veiða.

Þá leggja Færeyingar og ESB til að hlutur þeirra í kolmunnanum verði samtals 83,8% í stað 56,63% eins og verið hefur. Þar af var ESB með 30,5% heildarkvótans og Færeyjar með 26,13%. Þá leggja ESB og Færeyjar til að hlutdeild Noregs minnki úr 25,75% í 11,4% en Rússar haldi óbreyttum hlut sínum sem úthafsveiðiþjóð. Þeir hafa veitt sem svarar um 7% af samanlögðum kvóta strandríkjanna. Fyrrgreind tillaga ESB og Færeyinga um kvótaskiptingu kolmunnans kom fram á strandríkjafundi um veiðar á kolmunna fyrir árið 2015 í Clonakilty á Írlandi 21.-23. apríl.

Tillögu ESB og Færeyja hafnað

„Tillögu ESB og Færeyinga var algjörlega hafnað,“ sagði Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í atvinnuvegaráðuneytinu. Engin niðurstaða náðist því milli strandríkjanna um skiptingu hlutdeildar í kolmunna á þessu ári.

Jóhann sagði athyglisvert að Færeyingar og ESB legðu fram svo róttækar breytingar á skiptingu kolmunnakvótans t.d. í ljósi þess að Norðmenn væru langt komnir með að veiða kvóta sinn upp á 25,75%. Auk þess hefðu þeir tekið sér aukalega á þessu ári 10% kvóta vegna þess að samningurinn um kolmunnann væri kominn í uppnám.

„Við Íslendingar erum búnir að setja kolmunnakvóta fyrir þetta ár og höfum hann eins og við höfum haft, það eru þessi 17,63%, og veiðum það sem við teljum að við eigum að veiða. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Jóhann. „Við höfum ekki samþykkt neitt annað og látum þessa tillögu ekki trufla okkur.“

Ekki er ljóst hvað veldur þessu samkrulli ESB og Færeyinga. Ekki eru nema tvö ár síðan ESB setti löndunarbann á makríl og síld frá Færeyjum sem refsiaðgerðir vegna makrílveiða Færeyinga. ESB, Færeyjar og Noregur sömdu svo í fyrra sín á milli um skiptingu makrílkvóta á þessu ári. Nú virðast ESB og Færeyingar komin í eina sæng hvað kolmunnann varðar.

Færeyingar boðuðu til fundarins í Clonakilty og var hann framhald viðræðna sem hófust í október í fyrra. Færeyingar hyggjast boða framhaldsfund innan næstu tveggja mánaða. Fundarstjórn vegna kolmunnaveiða á næsta ári verður í höndum Íslands og tekur Ísland við stjórnartaumunum af Færeyingum í haust.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert