Illugi þurfti að selja íbúðina

Illugi og eiginkona hans þurftu að selja íbúð sína.
Illugi og eiginkona hans þurftu að selja íbúð sína. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkur umræða hefur verið að undanföru um vinnuferð sem Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra fór í til Kína í síðasta mánuði. Í ferðinni fundaði hann meðal annars með fulltrúum frá Orku Energy, félagi sem Illugi starfaði hjá um hríð er hann tók sér hlé frá þingstörfum eftir bankahrunið. 

Í samtali við mbl.is segir Illugi að látið hafi verið í það skína að ferðin hafi verið farin fyrir fyrirtækið eitt og sér en það sé síður en svo rétt. Þá greinir hann einnig frá sölu íbúðar þeirra hjóna en maður sem tengist Orku Energy keypti íbúðina af þeim. Segist Illugi vilja upplýsa um þetta þar sem hann vilji að öll tengsl séu uppi á borðum.

RÚV greindi fyrst frá málinu í hádegisfréttum sínum. 

Mjög óeðlilegt að hafa þá ekki á fundinum

Með í för voru rektorar þriggja háskóla, forstjóri Rannís og embættismenn. Í ferðinni fundaði Illugi með ráðherrum mennta-, vísinda- og menningarmála ásamt forrystumönnum íþróttahreyfinga, forsvarsmönnum háskóla og rannsóknarstofnunum sem snerta meðal annars Rannís. Fulltrúa Orku Energy og Marel voru staddir í Peking á sama tíma og ferðin var farin. Illugi bendir á að hluti af því sem falli undir vísindasamstarf á milli Íslands og Kína snúi að jarðhitaverkefnum.

„Þar er þetta fyrirtæki lang umsvifamest og hefur síðustu þrjú ár keypt þjónustu frá íslenskum jarðvísindamönnum fyrir 10 milljarða íslenskra króna og er starfandi í Asíu. Það hefði verið mjög óeðlilegt að mínu mati ef ég hefði ekki haft þá með á fundum sem sneru að vísindasamstarfi á sviði orkumála,“ segir Illugi og bendir á að ráðherrar fyrri ríkisstjóra, svo sem Jóhanna Sigurðarsdóttir og Össur Skarphéðinsson, hafi verið viðstaddir undirritanir viðskiptasamninga Orku Energy þegar þau voru í Kína.

Illugi segist hafa skráð störf sín fyrir Orku Energy samviskusamlega í hagsmunaskrá þingsins er hann starfaði fyrir það og bendir á að ekki sé óheimilt fyrir þingmenn að vinna með þingmennskunni önnur störf, svo framarlega sem þeir greini frá því.

Urðu fyrir miklum, fjárhagslegum skakkaföllum

Illugi og eiginkona hans neyddust til að selja íbúð sína. Hann segir að þau hjón hafi keypt íbúðina rétt fyrir bankahrunið og orðið fyrir miklum fjárhagslegum skakkaföllum auk þess sem þau urðu fyrir því að þurfa að taka á sig ábyrgðir vegna fyrirtækjareksturs sem þau voru í ásamt tengdaföður Illuga. Þá varð Illugi einnig fyrir töluverðu tekjutapi á árunum 2010 til 2011.

„Valið hjá okkur var að selja íbúðina eða standa frammi fyrir gjaldþroti. Þetta er staða sem þúsundir íslenskra heimila þekkja,“ segir Illugi. Maðurinn sem keypti íbúðina tengist Orku Energy en Illugi kynntist honum þegar hann starfaði fyrir félagið. Ákveðið var að setja íbúðina í félag sem hann hafði átt þegar hann var utan þings og yfirtók maðurinn því næst félagið. Samið var um að hjónin fengju að leigja íbúðina í tvö ár með möguleika á framlengingu og tók leiguverð mið af leiguverði á markaði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert