„Við teljum þetta varða við lög og ætlum að láta reyna á þessi mörk; hvar stoppar óheft málfrelsi og hvar tekur við vernd gagnvart því að halda lífi, mannvirðingu og heilsu,“ segir Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakanna '78, en fulltrúar úr stjórn samtakanna ásamt lögmanni þeirra munu kl. 8:30 í fyrramálið leggja fram kærur á lögreglustöðinni á Hverfisgötu á hendur tíu einstaklingum vegna ummæla sem hlutaðeigandi hafa látið falla í umræðu um hinsegin fólk.
Samkvæmt yfirlýsingu frá samtökunum flokkast orðræðan sem kærur þessar ná til sem hatursorðræða í garð hinsegin fólks sem ekki er heimiluð samkvæmt íslenskum lögum; einkum almennum hegningarlögum en einnig fjölmiðlalögum í ákveðnum tilvikum.
„Hinsegin fólk verður ítrekað fyrir aðdróttunum og árásum en með þeim er verið að taka mennskuna úr fólki og svíða það niður í svaðið. Þegar það er ítrekað gert varðar það við líf og hamingju fólks, og það er eitthvað sem verður að líta alvarlegum augum,“ segir Hilmar.
Hann segir ekki um einangruð tilvik að ræða, þar sem árásirnar séu viðvarandi og spretti upp aftur og aftur, nú síðast af miklu afli í síðustu viku. „Við sem stöndum í framlínunni erum svolítið brynjuð af reynslunni og höfum komið upp þykkum skráp, en það alvarlega er hversu gríðarleg áhrif svona umræða getur haft á marga. Það má lengi reyna á fólk og láta það sitja undir ýmsu, en þegar meiðandi orðræða viðgengst athugasemdalaust í lengri tíma brestur eitthvað.“
Þá segir hann höggvið að rótum lýðræðisins þegar ákveðnir hópar verða endurtekið fyrir árásum. „Við búum við samfélagssáttmála sem á að tryggja okkur það að við eigum að geta lifað í sátt og samlyndi og notið virðingar og réttlætis. Við teljum ítrekaðar árásir í garð hinsegin fólks því varða við lög.“