Baskar ekki lengur réttdræpir á Vestfjörðum

Minnisvarði baskanna sem fórust árið 1615
Minnisvarði baskanna sem fórust árið 1615 Ljósmynd/Ólafur Engilbertsson

„Ég var fenginn til að minnast 400 ára afmælis Spánverjavíganna síðasta dag vetrar. Ólafur Engilbertsson, formaður Baskavinafélagsins, stakk upp á því hvort ég myndi ekki taka tilskipun Ara sýslumanns, þess efnis að Baskar skyldu réttdræpir á Vestfjörðum, til baka,“ sagði Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum, í samtali við mbl.is.

Síðasta vetrardag var afhjúpaður minnisvarði við Galdrasafnið á Hólmavík um dráp á skipsbrotsmönnum frá Baskalandi á Spáni. Við það tækifæri afturkallaði Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum, tilskipun þess efnis að Baskar væru réttdræpir á Vestfjörðum. Greint var frá málinu á Reykhólavefnum.

Ari Magnússon (1571 - 1632) var sýslumaður á Vestfjörðum og er þekktastur fyrir Spánverjavígin árið 1615 þegar 32 Spánverjar voru drepnir á Vestfjörðum. Eru það sögð vera einu fjöldamorðin sem framin hafa verið á Íslandi.

„Auðvitað er þetta samt meira til gamans gert, það eru lög í landinu okkar sem banna dráp á Böskum,“ bætti Jónas við. En hefur hann orðið var við aukinn straum Baska á Vestfirði eftir athöfnina? „Þeim er allavega alveg óhætt að koma hingað núna,“ sagði Jónas hlæjandi.

Ólafur Engilbertsson er formaður Baskavinafélags Íslands. Hann var ánægður með atöfnina síðasta vetrardag. „Þetta var hluti af ráðstefnu. Við erum með dagskrá sem teygir sig fram í október til að minnast Spánverjavíganna fyrir 400 árum síðan.“

Ólafur sagði dagskrána þennan dag hafa verið mjög skemmtilega. „Héraðsstjóri Gipuzkoa í Baskalandi flutti ávarp, fulltrúar frá Baskalandi fluttu sjóferðarbæn og leikskólabörn frá Hólmavík sungu nokkur lög. Þetta var því mjög skemmtilegt,“ sagði Ólafur.

Hér er frétt Reykhólahrepps um málið.

Leikskólakrakkar á Hólmavík sungu lög
Leikskólakrakkar á Hólmavík sungu lög Ljósmynd/Ólafur Engilbertsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert