Öræfalandslag hrauns og sanda, heimsálfuskil, öflug hverasvæði, strandberg og svarrandi brim, slóðir sögulegra atburða og andans manna, brú yfir vatnsmesta fljót landsins, blómlegar sveitir og sjö þéttbýlisstaðir. Með vegagerð hefur opnast ný og áhugaverð um 200 kílómetra löng leið við suðurströndina, þar sem farið er nærri sjónum alla leiðina.
Þetta er Ísland í hnotskurn; frá Garðskaga að Þjórsá. Frá Suðurnesjum austur í Flóa.
Það eru svo sem engar nýjar fréttir að þessi leið sé til staðar, en líklegt má þó telja að fáir hafi sett hlutina í samhengi. Séð að þarna hefur opnast skemmtileg leið. Lengi vantaði raunar nokkra búta og leggi svo fara mætti um fyrrnefndar slóðir á beinni braut. Fyrirstöðurnar voru einkum tvær og nú eru þær farnar, það er Ósabotnar og lengi voru aðeins slóðar frá Grindavík austur í Þorlákshöfn. Nú er þar kominn uppbyggður vegur með slitlagi.
Ósabotnar ganga inn í Miðnesið á Reykjanesskaganum úr vestri. Lengi var svæðið innan girðinga Varnarliðsins og umferð bönnuð. Þegar herinn fór 2006 var svæðið opnað að nýju og þar útbúinn vegur, sem skapar tengingu í Hafnir.
Ósabotnar eru náttúruverndarsvæði, með fuglamergð og fjölbreyttu fjörulífi. Þá segir örnefnið Gálgaklettar heilmikla sögu.
Þegar hér er komið sögu hefur verið farið um þrjú byggðarlög; það er Garð, Sandgerði og Hafnir; sem eru 100 manna þorp innan marka Reykjanesbæjar. Skammt sunnan Sandgerðis er Hvalneskirkja og í hlaði er minnismerki um sálmaskáldið sr. Hallgrím Pétursson sem þar þjónaði um miðja 17. öld. Guðshúsið er úr hlöðnu grjóti, rétt eins og Kirkjuvogskirkja í Höfnum.
Sunnan Hafna eru áhugaverðir staðir. Upp af svonefndri Sandvík og inn til landsins gengur jarðsprunga, hvar talið er að séu plötuskil fleka jarðskorpunnar. Ameríkuflekinn er að norðan og Evrópuflekinn að sunnan. Þarna er Brúin milli heimsálfa sem svo er kölluð, sett upp fyrir nokkrum árum.
Þegar komið er að Reykjanestá sjást reginöflin í ham; við Gunnuhver kraumar allt, afl úr iðrum jarðar er nýtt til raforkuframleiðslu í Reykjanesvirkjun og út við ströndina, sjálfan suðvesturhæl landsins, ber brimið klettana. Valahnjúkur er auðkleifur og þaðan er útsýni til Eldeyjar. Á milli er Húllið, fjölfarnasta siglingaleiðin við landið. Sjófarendum til trausts er Reykjanesviti á Bæjarfelli og slær tveimur ljósleiftrum á 30 sekúnda fresti. Frá Reykjanesvita eru um 15 kílómetrar í verstöðina Grindavík, sem er æ fjölsóttari ferðamannastaður, meðal annars vegna nálægðar við Bláa lónið.
Mikil bót er að Suðurstrandarvegi sem var tekinn í notkun árið 2012. Þá er ekið úr Hraunshverfi, austast í Grindavík, og þar yfir hrygginn norðan Festarfjalls og svo um hraunin til austurs. Milli Grindavíkur og Krýsuvíkur eru Selatangar og þar standa enn rústir verbúða, sem reistar voru fyrir um 200 árum. Austar er Krýsuvíkurbjarg, sem gengur þverhnípt í sjó fram og sjófuglar á hverri syllu. Uppi í landinu er háhitasvæðið Krýsuvík og innar er Kleifarvatn, dulúð sveipað.
Og nú erum við komin austur í Selvog. Vestast er Herdísarvík. Þangað fluttu Einar Benediktsson skáld og Hlín Johnson árið 1932 og létu þar byggja íbúðarhús sem stendur þar enn. Þarna dvaldist Einar, sem lést 1940, sín síðustu ár.
Austar er Hlíðarvatn og kemur bæjaþyrpingin í Selvegi, gömul hús en nokkur þeirra eru nýtt sem sumarhús. Vestast er Strandarkirkja vestast, byggð 1888 og þykir góð til áheita.
Alls 58 km eru úr Grindavík í Þorlákshöfn, útgerðarbæ, og hvergi á landinu er unnið viðlíka magn af humri. Byggð tók að myndast í Þorlákshöfn um 1950 - og hefur staðurinn stækkað stöðugt síðan. Næst koma svo þorpin Eyrarbakki og Stokkseyri en þangað er farið um Hafnarskeið og um Óseyrarbrúna yfir Ölfusá, vatnsmesta fljót landsins.
Fyrst er komið að Eyrarbakka, bæ þar sem gömul hús frá 1900 eru áberandi enda er stundum talað um aldamótaþorpið. Sumar byggingarnar eru raunar eldri, svo sem Húsið sem var reist árið 1765 og var samastaður danskra höndlara í Eyrarbakkaverslun. Í húsinu er nú Byggðasafn Árnesinga, en mörg söfn og menningarstaðir eru á leiðinni sem hér er fjallað um.
Stokkseyri, staður með líkum svip og Eyrarbakki, stendur fram á sjávarkambi og hvarvetna eru tjarnir og dælur áberandi. Þetta er byggð á mörkum þéttbýlis- og sveitar, en nokkru austar er komið í blómlega sveit, kennda við Gaulverjabæ.
Sé haldið beint áfram til austurs á þessum slóðum er fljótlega komið að Þjórsá sem þar streymir lygn til sjávar um víðfeðman ósinn. Fram við sjóinn er bærinn Fljótshólar; og hermt er að frá engum bæ á Íslandi sé meiri fjallasýn en þar – það er fjöllin sem mynda bakland Suðurlandssléttunnar, það er frá Reykjanesi að Eyjafjallajökli. Vestmannaeyjar eru úti í blámanum og Surtsey við sjónardeildarhring.
Frá árósnum er góður vegur upp með vesturbökkum Þjórsár í hinum gamla Villingaholtshreppi. Nokkuð uppi í landinu er Urriðafoss í Þjórsá, sem er átta metra hár þar sem hann steypist fram af stöllum í ánni. Við fossinn eru góðar merkingar og markaðir stígar. Sú er og raunin um marga staði á þessari 200 km leið; það er frá Garðskaga með suðurströndinni að Þjórsárósum og Urriðafossi, sem er skammt neðan við hringveginn nærri Þjórsárbrúnni.