„Ég tel að Evrópusambandið sé að bregðast hárrétt við bréfi okkar. Eins og kemur fram í svarbréfinu þá taka þeir mið af stefnu ríkisstjórnarinnar, það er alveg skýrt, og ætli sér að fara í gegnum sína ferla. Það þýðir ekkert annað að mínu mati en að þeir ætli að bregðast við óskum okkar.“
Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is. Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, hefur svarað bréfi ríkisstjórnarinnar sem komið var til Evrópusambandsins um miðjan mars. Lettar fara með forsætið í ráðherraráði sambandsins um þessar mundir. Fram kom í bréfi ríkisstjórnarinnar að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu að mati stjórnarinnar og var óskað eftir því að sambandið tæki mið af því. Í svarbréfi Rinkevics kemur fram að tekið sé mið af afstöðu Íslands. Með hliðsjón af bréfinu verði tilteknar breytingar á verkferlum ráðherraráðs Evrópusambandsins teknar til skoðunar.
„Ég tel þetta vera staðfestingu á því að við séum ekki lengur talin umsóknarríki og munum smám saman hverfa af þessum listum yfir umsóknarríki,“ segir Gunnar Bragi. Fylgst verði náið með því að það gangi eftir en eðlilega geti það tekið einhvern tíma. Hann segist aðspurður ekki hafa átt von á öðrum viðbrögðum enda væri eitthvað undarlegt ef Evrópusambandið ætlaði ekki að taka mark á óskum ríkisstjórnar landsins.
„En ég fagna því að þeir ætli sér að virða vilja íslenskra stjórnvalda enda ekki við öðru að búast. Þeir hafa alltaf sagt að þeir myndu virða þann vilja. Þetta slær vitanlega líka á allar vangaveltur um að bréf ríkisstjórnarinnar hafi ekki haft neina þýðingu,“ segir Gunnar Bragi ennfremur. Spurður hvort málinu sé þar með lokið segist hann líta svo á.
„Ég get ekki túlkað þetta öðruvísi en svo en að málinu sé lokið af hálfu Evrópusambandsins líkt og raunin er af okkar hálfu. Það eina sem eftir stendur er að hrinda því í framkvæmd að við förum út af þessum listum yfir umsóknarríki. Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með því.“