„Tek ekki þátt í þeim skrípaleik“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég tel að það hafi verið mjög tímabært orðið að meta erlenda áhrifavalda hrunsins og þá ekki síst það gríðarlega fjárhagslega tjón sem innlendir aðilar urðu fyrir vegna ráðstafana sem teknar voru meðal annars af opinberum aðilum víða í nágrannaríkjunum þar sem íslensk fjármálafyrirtæki höfðu starfsemi.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag um rannsókn sem félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vinnur að fyrir fjármálaráðuneytið á þætti erlendra aðila í fjármálakrísunni hér á landi. Ráðherrann var þar að svara fyrirspurn frá Róberti Marshall, þingflokksformanni Bjartrar framtíðar, sem setti spurningamerki við aðkomu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar stjórnmálafræðiprófessors að rannsókninni vegna tengsla hans við Sjálfstæðisflokkinn og spurði um aðdraganda þess að samið hafi verið við stofnunina um verkið og hvort öðrum fræðimönnum hefði boðist það sama.

Bjarni sagði viðfangsefni rannsóknarinnar vera hluta af því uppgjöri sem þyrfti að eiga sér stað í kjölfar bankahrunsins. Af þeirri ástæðu hafi hann samið við félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um að framkvæma rannsóknina. Hann bæri ábyrgð á þeirri ákvörðun. Hvað ummæli Róberts um Hannes Hólmstein varðaði sagðist Bjarni ekki telja ræðustól Alþingis vera rétta vettvanginn til þess að vega að fjarstöddum einstaklingum fyrir að hafa rangar skoðanir að mati Róberts.

Róbert sagði mikilvægt að fjármálaráðuneytið væri ekki félagsmálastofnun fyrir félaga í Sjálfstæðisflokknum. Fjármunirnir sem fjármálaráðuneytið hefði veitt til rannsóknarinnar væru svipaðir og veita ætti til hjálparstarfs í Nepal. Ekki hafi verið að spyrja um það hvort þörf væri á rannsókninni heldur hvort Hannes Hólmsteinn væri rétti maðurinn til þess að framkvæma hana. Bjarni sagði hins vegar kjarna málsins vera það gríðarlega tjón sem innlendir aðilar hafi orðið fyrir vegna ráðstafana sem gripið hafi verið til á erlendum vettvangi.

„Það er eins og háttvirtur þingmaður hafi engan áhuga á því en það er aðalatriði málsins. Svo geta menn reynt að nota þennan ræðustól til þess að vega að mönnum úti í þjóðfélaginu sem geta ekki komið hingað og varið sig og sett ráðherra eða aðra þingmenn í þá stöðu að gera það bara fyrir þá. Ég ætla ekki að taka þátt í þeim skrípaleik með þessum háttvirta þingmanni,“ sagði Bjarni ennfremur.

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.
Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar. Norden.org/Heidi Orava
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert