„Fyrir óteljandi bréf, skilaboð og símtöl er ég afar þakklát og mun gera mitt allra besta til að standa undir vonum ykkar og væntingum,“ segir Hanna Birna Kristjándóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í bréfi sem hún hefur sent til sjálfstæðismanna en hún tók í dag sæti á Alþingi á ný eftir langt leyfi í kjölfar svokallaðs lekamáls. Þar óskar hún flokksmönnum gleðilegs sumars og þakkar þeim vináttu, hvatningu og hlýhug á liðnum vetri.
„Flokkurinn okkar er fjöldahreyfing vandaðs fólks og undanfarið hefur verið einstakt að upplifa enn og aftur hversu mikil forréttindi það eru að starfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Flokksmenn um allt land vilja leggja sitt af mörkum svo stjórnmálin verði málefnalegri og betri. En ég hefði varla trúað því að skilningur ykkar og stuðningur myndi nú í sumarbyrjun vera mér ofar í huga en sú reynsla sem var undanfari þess að ég um áramót steig til hliðar um sinn,“ segir Hanna Birna. Segist hún hlakka til þingstarfanna og verkefnanna framundan.
„Einmitt nú getum við aukið stuðning við hugsjónir okkar um sjálfstæði, frelsi og fjölbreytni og einmitt nú erum við í aðstöðu til að tryggja að þær hugsjónir skili sér í fleiri tækifærum fyrir fólkið í landinu. Ég mun því, líkt og þið öll, nýta tímann sem framundan er svo formaður okkar, ríkisstjórn og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins nái áfram mikilvægum árangri fyrir Ísland. Það skiptir mestu. Á næstu vikum vonast ég til að fá tækifæri til að hitta ykkur sem flest á fundum þar sem við gefum okkur tíma fyrir mikilvægt og uppbyggilegt framtíðarspjall.“