„Við létum bóka það hjá Ríkissáttasemjara fyrir hönd VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna að við lítum svo á að þessar viðræður séu árangurslausar,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, í samtali við mbl.is en viðræðum var slitið í dag í húsakynnum embættisins. Hún segir aðspurð mikið þurfa að koma til svo hægt verði að taka upp viðræður að nýju. Slit viðræðnanna þýði að líkur á verkfalli í lok maí hafi aukist mjög.
Ólafía segir að stjórn VR fundi í kvöld um stöðuna og síðan trúnaðarráð félagsins. Hún segir að Samtök atvinnulífsins hafi til þessa eingöngu viljað ræða málin út frá vinnumarkaðinum í heild en lítið vilja tala um kröfugerð VR. „Þannig að það er engin ástæða til þess að halda þessum viðræðum áfram með þessum hætti. Það þarf að koma eitthvað nýtt til. Hins vegar höfum við náð ágætis samtali við þá varðandi starfsmenntamál.“ Það sé það eina sem aðilar viðræðnanna hafi náð eitthvað saman um.
„Við munum síðan ákveða í framhaldinu hvaða aðferðum við munum beita. Við tökum stöðuna á fundinum í kvöld og sjáum síðan inn í hvaða farveg við erum að fara,“ segir Ólafía. Spurð hvort líkur á verkfalli hafi þar með aukist segir hún svo vera. „Því miður þá erum við bara að horfa fram á það að hér logi allt í verkföllum í lok maí. Það þarf að koma eitthvað mikið til til þess að stöðva þennan veruleika sem virðist blasa við okkur.“