Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga, segir það af og frá að ætlun geislafræðinga sé að valda tjóni með verkfallsaðgerðum sínum eða taka lykilstofnanir í gíslingu.
„Mér finnst umræðan vera farin langt út fyrir eðlileg mörk og ekki vera sérstaklega málefnaleg þegar kastað er fram tölum um krabbameinssjúklinga og meðferðarúrræði þeirra. Það er séð til þess að allir fái sína meðferð og það ber að hafa í huga að allar vaktir utan hefðbundinna dagvakta, sem eru frá átta á morgnana til fjögur á daginn, eru fullmannaðar. Þar fyrir utan eru gerðar undanþágur í neyðar- og bráðatilvikum,“ segir Katrín.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á Alþingi í gær að ekki væri eðlilegt að lykilstofnanir í samfélaginu væru teknar í gíslingu í verkfallsaðgerðum og að hátt í 100 manns fengju ekki krabbameinsmeðferð sökum þess.