Mál Samtakanna '78 á sér fordæmi

Samkynhneigðir hafa barist fyrir réttindum sínum í tugi ára.
Samkynhneigðir hafa barist fyrir réttindum sínum í tugi ára. AFP

Dómur Hæstaréttar í málinu sem oft er kallað „Hvíta Ísland“ málið er ákveðið fordæmi sem ég leit til við mat á heimfærslu hinna kærðu ummæla undir 233. gr. a almennra hegningarlaga. Við tókum strax þá ákvörðun að greina ekki frá ákveðnum ummælum sem nú hafa verið kærð, en við völdum þau mjög vandlega.“

Þetta segir Björg Valgeirsdóttir, lögmaður Samtakanna '78, sem í gær lagði fram fyrir þeirra hönd 10 kærur vegna ummæla ein­stak­linga sem fallið hafa undanfarin misseri og fela samkvæmt kærunum í sér háð, róg, smánun eða jafnvel ógnun í garð hinsegin fólks.

Björg segir málið ekki fordæmalaust og bendir á fyrrnefnt „Hvíta Ísland“ mál en dómur í því féll í Hæstarétti 2002. Það varðar ummæli sem látin voru falla í viðtali sem birtist í helgarblaði DV þann 17. febrúar 2001 og bar yfirskriftina „Hvíta Ísland“.

„Í því máli er fjallað um kynþáttaníð en að breyttum breytanda er núna verið að tala um kynhneigð eða kynvitund. Ég tel að það megi auðveldlega nota til leiðbeiningar heimfærslu Hæstaréttar í þessum dómi undir verknaðarlýsingu 233 gr. a. almennra hegningarlaga,“ segir Björg.

Frétt mbl.is: Háð, rógur, smán og ógnun

Frétt mbl.is: Samtökin '78 kæra hatursfull ummæli

Hatursorðræðan hefur áhrif á fjölskyldulíf og friðhelgi einkalífs

„Þegar kannað er í hvaða samhengi ummælin birtast, sum þeirra núna um daginn í umræðu um hinseg­in fræðslu í grunn­skól­um Hafn­ar­fjarðar, kemur auðvitað í ljós níð í garð hinsegin fólks sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur skilgreint sem hatursorðræðu. Þegar það samhengi er skoðað þá er þetta klárlega háttsemi sem lagaákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir,“ segir Björg. 

Að sögn Bjargar hófst samstarf hennar og Samtakanna '78 eftir að til hennar leitaði einstaklingur sem taldi á sér brotið vegna umræðu um hinsegin fræðslu í grunnskólum.

„Við athugun vegna þess sá ég að orðræðan hefur glögglega áhrif á fjölskyldulíf og friðhelgi einkalífs fyrir ákveðna aðila og ég hugsaði með mér að það væri ekki rétt að láta þennan einstakling fara í þessa baráttu einan. Þannig að ég skoðaði þetta og setti mig í samband við samtökin sem voru á nákvæmlega sama stað og ég. Í kjölfarið fórum við saman í þessa vegferð.“

Björg telur það augljóst að hægt sé að líta til dóms Hæstaréttar frá 2002 þegar það kemur að kærunum sem lagðar fram voru í gær. „Ég fer ekkert í grafgötur með það að við séum með það á hreinu að þetta er ekki fordæmalaust,“ segir Björg. Í umræddum dómi Hæstaréttar frá 2002 var ákærði dæmdur til þess að greiða sekt og allan sakarkostnað.

Samskonar mál í Svíþjóð 2012

Björg nefnir einnig dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá árinu 2012. Aðdragandi þess máls var sá að hópur einstaklinga voru dæmdir í Svíþjóð fyrir að dreifa bæklingum með hatursorðræðu í garð samkynhneigðra í menntaskóla í Svíþjóð. Að sögn Bjargar var fólkið dæmt til refsingar á grundvelli sænskra laga.

„Þau voru ósátt við niðurstöðuna og töldu að brotið væri á sínu tjáningarfrelsi. Dómur innanlandsdómstólsins var kærður til Mannréttindadómstóls Evrópu sem lagði mat á það hvort að refsing þessa hóps væri lögmæt með hliðsjón af tjáningarfrelsisákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Í stuttu máli taldi dómstóllinn sakfellinguna ekki fela í sér brot á tjáningarfrelsi kærenda, enda hefðu þeir dreift hatursorðræðu í garð samkynhneigðra,“ segir Björg og heldur áfram „Þessi dómur er frá árinu 2012, hann er enn volgur og sýnir að það sem sumir hafa sagt, að við séum með vísa til lagaákvæðis sem ekki samræmist nútímaviðhorfum, er ekki rétt.“

Björg bætir við að 233. gr. a. almennra hegningarlaga var síðast endurskoðuð árið 2014. „Þetta er ekki úrelt lagaákvæði,“ segir Björg. „Nútíminn krefst þess að samfélaginu sé ekki boðið upp á þessa umræðu sem ýtir undir hatur og fordóma. Hinsegin fólk hefur barist fyrir réttindum sínum með mjög ötulum hætti og samtökin sjálf í tæp fjörtíu ár. Þetta er ekkert grín. Það er búið að ná miklu fram í hinsegin baráttunni hérlendis þessi ár og það má ekki hindra þá þróun með röddum háværra einstaklinga útí bæ sem eru illa upplýstir eða einfaldlega fordómafullir.“

Refsing fyrir að breiða út hatur nauðsyn

Björg segir að í málinu frá 2012 hafi Mannréttindadómstóll Evrópu farið í mjög vandað mat á því hvort að refsing fyrir að breiða út hatur í garð samkynhneigðra sé nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi.

„Niðurstaðan var mjög skýr. Það er nauðsynlegt í lýðræði að svona áróður sé ekki breiddur út,“ segir Björg.

„Það mega allir hafa sínar skoðanir. Það mega allir hugsa eins og þeir vilja. Þú mátt hafa hugsanir fyrir sjálfan þig en tjáningu fylgir ábyrgð. Þér er óheimilt að tjá þínar hugsanir og skoðanir opinberlega þegar þær fela í sér smánun, róg, háð eða ógnun í garð minnihlutahópa sem löggjafinn hefur ákveðið að vernda með refsiábyrgð. Við vissar aðstæður verður þú að hafa þínar skoðanir fyrir sjálfan þig og nýta þitt hugsanafrelsi sem er ótakmarkað, en ekki tjáningarfrelsi því hér er það er takmarkað.“

Hér má sjá dóm Hæstaréttar frá 2002.

Björg Valgeirsdóttir, lögmaður Samtakanna ´78.
Björg Valgeirsdóttir, lögmaður Samtakanna ´78.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka