Öll spjót beinast að Ingólfi

Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi.
Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi.

Deild eigin viðskipta hjá Kaupþingi hafði lítið sem ekkert að segja um stærstan hluta þess eignasafns sem skráð var hjá deildinni og samanstóð af bréfum í bankanum sjálfum. Allar ákvarðanir í því máli voru á höndum forstjóra bankans, Ingólfs Helgasonar. Þetta hefur komið fram í yfirheyrslu yfir fv. forstöðumanni eigin viðskipta, Einari Pálma Sigmundssyni, sem er einn ákærðu í málinu.

„Höfðum ekkert um þetta að segja“

Saksóknari í málinu hefur meðal annars lagt fram yfirlit yfir hlutafjáreign deildarinnar í Kaupþingi. Einar hafði áður sagt að hann væri varfærinn að eðlisfari og væri ósáttur við svona stórar stöður, en að bankinn væri áhættusækinn banki og hann væri starfsmaður þar. Sagði hann allar ákvarðanir um þetta hafa komið frá yfirstjórnendum bankans. „Eigin viðskipti vissu á þessum tíma að við höfðum ekkert um þetta að segja,“ sagði Einar.

Ingólfur stjórnaði Kaupþingsbréfunum

Saksóknari hefur í málinu lagt fram fjölda símtala milli Ingólfs og Einars sem ýta undir að Ingólfur hafi í raun stýrt öllu sem tengdist kaupum og sölum á bréfum í bankanum sjálfum. Þá hefur Einar í yfirheyrslu síðustu tvo daga svarað því afdráttarlaust að öll fyrirmæli hafi komið frá Ingólfi varðandi hvernig viðskiptum með bréfin skyldi háttað.

[Við] „vissum ekki alltaf hver ástæðan fyrir því að yfirstjórn var að kaupa,“ sagði Einar um vitneskju og áhrif starfsmanna eigin viðskipa um Kaupþingsbréfin. Bætti hann við að í raun hefði deildin ekki vitað hvort þau væru að kaupa og selja bréf til að auka seljanleika og þar af leiðandi vera óformlegur viðskiptavaki, eða hvort áætlunin hafi verið að byggja upp stærri hlutabréfapakka sem seinna átti að selja.

Meðal þekktra hlutabréfapakka sem voru seldir á þennan hátt voru Al Thani kaupin, auk kaupa félaganna Holts, Desulo og Mata, en fyrir seinni viðskiptin þrjú er einnig ákært í þessu máli.

Vildi ekki selja öðrum bönkum

Í einu símtalanna sem var spilað í dag kemur fram að Ingólfur hafi ekki viljað selja öðrum bönkum bréf í Kaupþingi þar sem menn hafi verið hræddir við árásir á verð bankans. Aftur á móti hafi hann verið til í að selja ef um væri að ræða sérstaka aðila, sem upplýst var að væru stærri lífeyrissjóðir.

Því til sönnunar að deild eigin viðskipta hafi lítið með Kaupþingsbréfin að segja benti Einar á að þegar Gnúpur féll árið 2008 hafi stór skammtur Kaupþingsbréfa frá þeim ratað inn á bók eigin viðskipta. Auk þess hafi talsvert af bréfum í FL Group fylgt með, en af þessu hafi verið mikið tap. Deildin hafi aftur á móti ekki haft neitt að segja með þetta.

Öll spjót beinast að Ingólfi

Í dómsmálinu eru þeir Einar og Ingólfur kærðir fyrir markaðsmisnotkun á kauphlið málsins. Auk þeirra eru starfsmenn eigin viðskipta, þeir Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson ákærðir. Þá eru brotin sögð hafa verið framkvæmd að undirlagi Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar, fv. stjórnarformanns og forstjóra Kaupþings.

Fram til þessa hafa öll bönd beinst að Ingólfi og símtöl og tölvupóstsendingar sýnt fram á að hann hafi verið mjög viðriðinn málið og skipað fyrir varðandi kaup og sölu. Framburður Einars Pálma, Birnis og Péturs Kristins hafa einnig rennt frekari stoðum undir það. Þá sagði saksóknari í dag að áætla megi lengri tíma í yfirheyrslur á Ingólfi en upphaflega var áætlað. 

Tenging Hreiðars Más og Sigurðar hefur aftur á móti hingað til verið takmörkuð, en næstu tveir dagar, þegar Ingólfur kemur fram sem vitni, munu væntanlega varpa nánara ljósi á hvort aðkoma þeirra hafi verið einhver, eins og getið er á um í ákærunni.

Aðalmeðferð í málinu mun standa yfir í 22 daga, en …
Aðalmeðferð í málinu mun standa yfir í 22 daga, en slíkt er mjög fáheyrt hér á landi.
Einar Pálmi hefur síðustu tvo daga setið fyrir svörum.
Einar Pálmi hefur síðustu tvo daga setið fyrir svörum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert