Blaðamaður Fréttablaðsins gagnrýnir skrif Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í blaðinu í gær m.a. með þeim orðum að Jón hafi „barmað sér“ yfir því að Hæstiréttur hafi ómerkt sýknudóm í Aurum-málinu og vísað því aftur í hérað.
„Jón Ásgeir rekur þar í nokkru máli hve ótrúverðugt það sé að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað af því að einn meðdómara í héraðsdómi, Sverrir, hafi verið bróðir eins sakborninga, Ólafs Ólafssonar,“ skrifar Kolbeinn Óttarsson Proppé, blaðamaður, í pistlinum Frá degi til dags, á leiðaraopnu Fréttablaðsins í dag. Fyrirsögn pistilsins er: Að mála með eigin litum.
„Ekki er annað að skilja á Jóni Ásgeiri en að þetta sé ástæðan fyrir því að Hæstiréttur vísar málinu aftur heim í hérað. „Af hverju er svona rugl í kerfinu tekið út á okkur sem vorum sýknaðir?“ spyr hann og er nokkuð niðri fyrir. Þetta er allt gott og blessað, nema fyrir það smáatriði að Hæstiréttur byggði sína niðurstöðu ekki á skorti sérstaks saksóknara á ættfræðiþekkingu, heldur því að Sverrir Ólafsson úttalaði sig um embætti sérstaks saksóknara. Mögulega hentar sú mynd sem Jón Ásgeir málar upp af honum og hans málstað betur en sú rétta, en hún er engu að síður röng, þótt hún sé máluð með hans eigin litum.“
Kolbeinn skrifar svo að kannski sé það skiljanlegt að maður sem hefur verið í dómsal í þrettán ár að verja sig líti ekki hlutlausum augum á dómskerfið.
„Á grein Jóns Ásgeirs er hins vegar ekki annað að skilja en að dómskerfið í heild sinni starfi í og með til að koma honum í fangelsi. Enskur málsháttur segir eitthvað á þá leið að ef það gengur eins og önd og hljómar eins og önd þá sé líklegast um önd að ræða. Þann ágæta málshátt má heimfæra á vænisýki,“ skrifar Kolbeinn.
Hann lýkur svo pistli sínum á þessum orðum: „Ef Jón Ásgeir vill kenna einhverjum um að Hæstiréttur vísaði málinu heim í hérað er Sverrir Ólafsson nærtækasti kosturinn. Ummælin sem Hæstiréttur byggir niðurstöðu sína á lét hann falla í viðtali við RÚV og þar sakaði hann sérstakan saksóknara um „örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir“ og ýmislegt fleira. Sagan á mögulega eftir að dæma það sem eitt af verstu viðtölunum, að minnsta kosti hafði það töluverðan kostnað í för með sér þar sem nú hefst málarekstur á ný.“