Milljarðar í verkfallssjóðum

Samþykkt var á aðalfundi Eflingar í gær að boða verkfall.
Samþykkt var á aðalfundi Eflingar í gær að boða verkfall. mbl.is/Árni Sæberg

Engin lausn virðist í sjónmáli í yfirstandandi kjaraviðræðum fjölda verkalýðs- og stéttarfélaga við aðila vinnumarkaðarins og ríkið. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, hefur lagt til að félögin komi saman að samningaborðinu og gerður verði heildarkjarasamningur.

„Það hefur komið til tals í þessari kjaradeilu að koma á heildarviðræðum og það er að mínu mati
mjög skynsamleg lausn. Til þess að slíkt gangi upp þurfa allir að koma að borðinu, m.a. opinberi markaðurinn,“ segir Ólafía og bendir á að menn hafi rætt þessi mál sín á milli hjá ASÍ.

Í umfjöllun um kjaraviðræðurnar í Morgunblaðinu í dag segist Páll Halldórsson, fráfarandi formaður BHM, ekki vilja útiloka hugmyndir um heildarsamning en kröfur BHM lúti m.a. að því að menntun sé metin til launa og erfitt gæti verið að samtvinna kröfur aðila.

Hátt í þrír milljarðar eru í verkfallssjóði VR, Efling stéttarfélag hefur um 2,2 milljarða í verkfallssjóði og eins stendur sjóður Verkalýðsfélags Akraness vel. Hjá BHM eru 700 félagsmenn í 17 aðildarfélögum og er staða verkfallssjóða almennt góð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert