„Það svo sem voru töluverðar umræður um einstaka þætti og við ákváðum að hvor um sig myndi aðeins skoða betur í sínum ranni hvernig hinn brást við. En í sjálfu sér hefur ekkert gerst í því að leysa deiluna sem slíka.“
Þetta segir Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, en nefndin fundaði með samninganefnd BHM í um fjóra tíma í dag.
Að sögn Gunnars er kröfugerð BHM enn langt frá einhverju sem hægt er að verða við og hann segir að þar hafi ekkert verið slegið af nýlega. Næsti fundur í kjaradeilunni verður haldinn á mánudag kl. 13, en Gunnar segir ástæðulaust að binda fólk á fundum á meðan ekkert þokast.
Verður deilan mögulega leyst með öðrum lausnum en þeim sem snúa að prósentutölunni eða erum við að bíða eftir því að annar blikkar?
„Maður veit svo sem aldrei fyrirfram hvað þarf til,“ segir Gunnar. „Þess vegna erum við einmitt að reyna að skoða útfrá öðrum flötum hvort það eru einhver önnur atriði sem við getum tekið upp. En óneitanlega er áhersla þeirra á að meta menntunina sjálfstætt, hún flækist svolítið fyrir okkur. Því við horfum á að við séum að ráða fólk til tiltekinna starfa og það sé starfið sem þurfi að meta til launa. Þannig að það er líka megin áherslumunur á okkur. Auðvitað eru svoleiðis atriði leysanleg ef menn á annað borð setjast yfir það. En til þess að setjast yfir það þurfa menn að vera sammála um hvað það má kosta. Og þar náum við ekki saman.“
Hefur samninganefndin fengið einhverjar bendingar um það frá stjórnvöldum að það sé vilji til þess að koma til móts við BHM umfram margumrædd 3,5%?
„Ríkisstjórnin er alveg staðföst í því að hún ætlar ekki að vera sá aðili sem kemur verðbólgunni af stað,“ segir Gunnar. „En auðvitað er alltaf horft til þess hvað aðrir eru að gera líka og hvort það sé eitthvað sem við getum nýtt.“