Fundur samninganefndar Samtaka Atvinnulífsins og samninganefndar SGS hefst í húsnæði ríkissáttasemjara klukkan tíu. Formaður samninganefndar SGS, Björn Snæbjörnsson, er ekki bjartsýnn á að deilan verði leyst í dag.
„Fundurinn í dag er númer tíu í röðinni. Ég hef nú ekki trú á því að eitthvað gerist í dag, en ríkissáttasemjari hefur boðað fund og við mætum auðvitað á hann,“ segir Björn í samtali við mbl.is.
Tíu þúsund félagsmenn SGS leggja niður störf á hádegi í dag ef ekki næst að semja en þessi fyrsta verkfallshrina stendur yfir í tólf klukkustundir. Verkfallsaðgerðirnar ná ekki tl höfuðborgarsvæðisins en munu hafa gífurleg áhrif á landsbyggðinni.
Félagsmenn í þeim sextán verkalýðsfélögum sem fara í verkfall starfa í flestum atvinnugreinum á landsbyggðinni, m.a. fiskvinnslu, kjötvinnslu, í sláturhúsum, ferðaþjónustu, vöru- og fólksflutningum og ræstingum.
Einnig falla niður fjölmargar ferðir Strætó á landsbyggðinni.