Ríkisstjórnin var sökuð um að festa í sessi og gefa í óréttlæti kvótakerfisins með makrílsfrumvarpi sjávarútvegsráðherra á Alþingi í morgun á sama tíma og ekki liggi fyrir hvernig framtíðarstjórnun fiskveiða verður háttað og unnið sé að stjórnarskrárákvæði um sameign á auðlindum.
Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, út í makrílsfrumvarp hans í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. Spurði hún hvort ekki væri rétt að bíða með frumvarpið sem úthluti aflaheimildum til sex ára og sé fordæmisgefandi á meðan ekki liggi fyrir frumvarp um framtíðarstjórn fiskveiða og ákvæði í stjórnarskrá um sameign þjóðarinnar á auðlindum.
Sjávarútvegsráðherra vísaði til þess álits umboðsmanns Alþingis að stjórnvöldum hafi verið skylt að annað hvort hlutdeildarsetja makrílinn eða setja sérlög um hann frá árinu 2011. Nú sé ráðuneyti hans að leggja fram frumvarp að sérlögum sem byggi á þeim lögmætu væntingum sem síðasta ríkisstjórn hafi gefið til þeirra sem stunduðu manneldisvinnslu á makríl um að tekið yrði tillit til þess þegar kæmi að hlutdeildarsetningu tegundarinnar. Sex ára gildistími sé lágmarkstími fyrir þann fyrirsjáanleika sem atvinnugreinin þurfi til að geta fjárfest og byggt upp sjávarútveginn.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hvers vegna ríkisstjórninni lægi svo á að koma frumvarpinu í gegn. Að hennar mati væri mikilvægara að tryggja eign þjóðarinnar á auðlindinni í stjórnarskrá því fólki svíði enn óréttlæti þess hvernig kvótakerfinu var komið á. Nú þegar komið sé að því að útdeila kvóta á nýrri fisktegund eigi að taka upp nákvæmlega sömu hættina með því að gefa auðlindina og aflaheimildirnar sem gríðarleg verðmæti felist í.
„Hæstvirtur ráðherra hefur hér grímulaust tekið upp varnir fyrir það kerfi sem við höfum búið við þar sem að einstaklingum í þessu landi hefur verið sköpuð aðstaða til þess að hagnast á auðlindum þjóðarinnar langt umfram það sem eðlilegt getur talist og án þess að þjóðin sem á þessa auðlind fái réttlátan hlut af þeim arði sem þar skapast. Þessi ríkisstjórn stendur vörð um það kerfi. Þessi ríkisstjórn gerir ekki bara það heldur gefur hún hér í með þessu frumvarpi þar sem á að geirnegla þetta kerfi niður og ef eitthvað er, þá er verið að ganga enn lengra og skjóta styrkari stoðum undir það kerfi sem við höfum búið við,“ sagði Katrín.
Sigurður Ingi sagði það rangt að verið væri að stíga skref til að festa kerfið í sessi heldur til sátta. Viðbótargjaldið sem lagt væri á í frumvarpinu tryggði ennfremur að þjóðin fengi stærri skerf af kökunni. Þá væri það rangt að halda því fram að kvótakerfinu hafi verið komið á með gjafakvóta.
„Það vildi enginn þingmaður í neinum flokki og enginn almenningur taka það á sig þegar hér var verið að veiða langt umfram heimildir og getu stofnanna til þess að standa undir sjálfbærum vexti og alltof mörg skip og allir á hausnum. Þá vildi enginn að ríkið tæki það á sig og keypti heimildirnar og væru þar með einhverjum öðrum hætti. Menn sögðu: „sjáið þið um þetta í útgerðinni“. Og þeir gerðu það, höfðu veitt í áratugi og árhundruð og héldu því áfram. Núna þegar vel gengur koma ýmsir fram og segja: „Nú vil ég“,“ sagði ráðherrann.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði að einstakt tækifæri væri fyrir hendi með þessa nýju fiskveiðitegund fyrir ríkið að leigja aðgang á markaðsvirði til sjávarútvegsfyrirtækjanna. Það sé það sem landsmenn vilji og það sem sé sanngjarnt. Hægt væri að koma til móts við réttmætar væntingar þeirra sem hafa veitt makrílinn með því að taka tillit til fjárfestinga sem þeir hafi lagt í ef þeir geti sýnt fram á það.
„Réttlæting fyrir kvótakerfinu er að það er búið að vera svo lengi og menn eru búnir að kaupa og selja sín á milli þannig að við getum ekki gert neitt núna með það. En þetta er ný fiskveiðitegund sem er verið að setja í kvóta núna. Það er hægt að gera þetta núna,“ sagði Jón Þór.
Sigurður Ingi sagði að síðasta ríkisstjórn hafi skapað lögmætar væntingar hjá þeim sem hófu veiðar á makríl með fyrirheitum um að þeir gætu vænst þess að til þess yrði horft við hlutdeildarsetningu ef þeir færðu sig út í manneldisvinnslu. Í frumvarpinu væri verið að innheimta auknar tekjur af auðlindinni.
„Sú leið sem hér er farin að úthluta tímabundið til sex ára með viðbótargjaldi til að þjóðin fái stærri hluta af þeirri köku hún er farin vegna þess að sú leið sem við hefðum kosið að fara, að geta skattlagt sölu á aflaheimildum milli útgerða, sem hefði verið ákjósanleg, hún var því miður ekki fær vegna fjölda mögulegra sniðgangna á því sviði,“ sagði hann.
Spurði þá Jón Þór þá hvort að ráðherrann væri að segja að það væri komnar það miklar væntingar um að menn eigi að fá gefins kvóta að það sé ekkert hægt að gera í því. Eitthvað mjög einkennilegt hlyti að vera við það. Það væri mjög ríflegt að þeir sem hafi fjárfest til að skapa sér samkeppnisstöðu við veiðar á nýrri fiskveiðitegund geti fengið þá forgjöf að fá fjárfestinguna endurgreidda af ríkinu en Jón Þór sagði þó að hægt væri að gera það tímabundið og á þeim grundvelli.
„Það væri hægt að segja að væri sanngjarnt en þetta kerfi sem er verið að reyna að innleiða núna býður upp á það að það tekur sex ár að segja því upp sem þýðir það að það er pólitískur ómöguleiki að velta þessu kerfi úr sessi þegar það er komið á,“ sagði Jón Þór.
Sjávarútvegsráðherra gerði aftur athugasemd við fullyrðingar stjórnarandstöðuþingmanna um gjafakvóta sem hann sagði rangnefni.