„Viðskiptavinir athugið! Kjúklingaskortur í verslunum stafar af verkfalli dýralækna. Bendum á frosnar E.S bringur í kistunni frammi á 1.579 kr pokinn. Starfsfólk Bónus.“
Þetta voru skilaboðin sem blöstu við viðskiptavinum Bónuss á Nýbýlavegi í vikunni þar sem ferskur kjúklingur virðist ekki lengur vera til.
Viðbúið var að úrval af ferskri kjötvöru í búðum minnkaði í verkfalli dýralækna, en við upphaf þess stöðvaðist slátrun spendýra og fiðurfénaðar.
Undanþágunefnd Dýralæknafélags Íslands samþykkti í vikunni mjög takmarkaða slátrun á kjúklingum frá búum þar sem dýravelferðarþættir voru komnir að hættumörkum. Um er að ræða 50.000 kjúklinga og tæplega 1.000 kalkúna.
Þá stöðvast einnig að mestu innflutningur á dýraafurðum, eins og kjöti og ostum.
Dýralæknar segja að dýravelferð sé í hávegum höfð en ræktendur halda hinu gagnstæða fram og óttast að málleysingjarnir þjáist vegna verkfallsaðgerða dýralækna.