Andlát: Einar Þorsteinn Ásgeirsson arkitekt

Einar Þorsteinn Ásgeirsson.
Einar Þorsteinn Ásgeirsson.

Einar Þorsteinn Ásgeirsson, arkitekt, listamaður og heimspekingur, lést í Reykjavík 28. apríl sl., 72 ára að aldri.

Einar fæddist í Reykjavík 17. júní árið 1942. Foreldrar hans voru Ásgeir Ólafsson Einarsson dýralæknir og Kirstín Lára Sigurbjörnsdóttir kennari. Einar Þorsteinn lauk stúdentsprófi frá MR árið 1962, lauk Dipl.-Ing.-prófi í arkitektúr frá Tækniskóla Hannover í V-Þýskalandi 1969 og stundaði framhaldsnám og störf á teiknistofunni Warmbronn hjá Frei Otto á árunum 1969 og 1970. Einar Þorsteinn kynntist árið 1964 hugmyndum Richards Buckminster Fuller (Bucky) sem varð mikill áhrifavaldur í störfum Einars alla tíð.

Hann vann við tilraunastofu Burðarforma en vegna sérstakra arkitektúrlausna á Íslandi var hann oft nefndur kúluhúsaarkitektinn hér á landi.

Hann skrifaði um arkitektúr og fleira fyrir Morgunblaðið á árunum 1970 til 1993 og eftir hann liggja nokkrar bækur. Starfaði með fjölda listamanna erlendis, m.a. Ólafi Elíassyni í Berlín um margra ára skeið, en Ólafur notaði fimmfalda symmetríu Einars Þorsteins við hönnun á glerhjúp Hörpu.

Einar Þorsteinn sinnti margvíslegri hönnun, starfaði í Þýskalandi í rúm 20 ár og hélt nokkrar sýningar í Evrópu. Árið 2011 var haldin retróspektífsýning í Hafnarborg á starfsferli hans. Þá heimsótti hann öll ríki Bandaríkjanna þegar hann vann við gerð sérstaks arkitektúrs á Íslandi, sem af Pétri Ármannssyni arkitekt var lýst sem „geimaldar-arkitektúr á Íslandi“. Árið 2006 setti Einar Þorsteinn á fót stofnunina „I am: Stofnun til eflingar hugans“ en hann hafði mikinn áhuga á heimspeki og andans málum. Einnig hafði hann áhuga á geimferðaáætlunum og var í samvinnu við geimferðahönnuði í Boston. Árangurinn var farartækið Scorpion Rover til nota í geimferðir um Mars og tunglið.

Einar var þrígiftur og eru börn hans af fyrsta hjónabandi Sif og Ríkharður. Barnabörnin eru þrjú; Auður, Geir og Lára Kristín Ragnarsbörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert