„Maður veltir því oft fyrir sér hvort ríkjandi ójöfnuður sé orðinn svo rotinn að okkur takist ekki að leiða þjóðarsálina inn á nýjar brautir.“ Þetta sagði Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar, í ræðu sinn á 1. maí hátíðarhöldum á Húsavík í dag.
Sagði Aðalsteinn að lítið hefði áunnist frá hruninu 2008 og að hann skynji það reglulega í starfi sínu fyrir stéttarfélagið. Rifjaði hann upp ræðu formanns Samtaka atvinnulífsins frá aðalfundi samtakanna. Sagði hann formanninn hafa gagnrýnt verkalýðshreyfinguna fyrir óábyrgar kröfur fyrir kröfu um 35 þúsund króna launahækkun lægstu launa. Nær væri að verkafólkið tæki við sjö þúsund króna hækkun, það myndu allir græða á því.
„Sami maður sem jafnframt er forstjóri Icelandair Group hafði skömmu áður laumast með flugmenn félagsins, sem áttu í kjaradeilum við fyrirtækið, út í bæ þar sem gengið var frá verulegum launahækkunum til að forða fyrirtækinu frá verkfalli,“ sagði Aðalsteinn og bætti við: „Á stundum sem þessum veltir maður því alvarlega fyrir sér hvort maður sé í raun heilbrigður, réttsýn eða hreinlega bilaður og með skerta greindarvísitölu.“
Aðalsteinn rifjaði einnig upp nýjustu fréttir um fimm milljóna launahækkun framkvæmdastjóra KEA og 33% hækkun stjórnarlauna í HB-Granda. „Með blóðhlaupin augu af siðblindu og græðgi tóku þeir við þessum greiðslum án þess að missa bros eða skammast sín, árangurinn var þeirra. Þessar gjörðir lýsa hugarfari sem er í raun óhugnanlegt í íslensku samfélagi og einkennist af algjöru og nánast sjúklegum skorti á samkennd, náungakærleika og mannúð,“ sagði hann.
Í ræðu sinni gagnrýndi Aðalsteinn einnig hvernig seðlabankastjóri hefði endalaust stigið fram og varað við hækkunum láglaunafólks sem stefndi efnahagslífi og stöðugleika í hættu. Benti hann á að seðlabankastjóri hefði ekki séð ástæðu til að stíga fram þegar ákveðnir hópar fengu tug prósenta hækkanir umfram verkafólk.
Sagði hann að ef ekki semjist fyrir 26. maí muni allsherjarverkfall tíu þúsund verkamanna hefjast í landinu og að ábyrgðin skrifist alfarið á Samtök atvinnulífsins. Sagði hann hagsmunapot þeirra miða við prósentutölur sem kæmu hinum efnameiri betur en láglaunafólki sem situr eftir.