Myndlistarmaðurinn Christoph Büchel, sem verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum sem verður opnaður 9. maí, skapar í aflagðri kirkju í Feneyjum verk sem mun kallast Moskan.
Er það unnið í samstarfi við samfélög múslima á Íslandi og í Feneyjum en í hinum gamla, sögulega hluta Feneyja hefur aldrei verið byggð moska. Tilgangurinn með verkinu er að draga athygli að stofnanavæddum aðskilnaði og fordómum í samfélaginu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Büchel fæddist í Sviss en hefur frá árinu 2007 starfað á Íslandi. Hann hefur sett upp viðamiklar sýningar í söfnum víða um lönd.