„Íbúðin var keypt á heila milljón“

Reynir Svan Sveinbjörnsson og Signa Hrönn Stefánsdóttir.
Reynir Svan Sveinbjörnsson og Signa Hrönn Stefánsdóttir. Ljósmynd/Signa Hrönn Stefánsdóttir

„Ég hef aldrei tekið þátt í jafn miklum skrípaleik og þegar dómari og co mættu til okkar með hamarinn sinn. Þeir vildu alls ekki koma nema inn í forstofuna. Durturinn frá Íbúðalánasjóði var fljótur að bjóða í íbúðina þegar dómari spurði hvort það væru einhver tilboð. Hann bauð heilar 1.000.000 krónur. Hamrinum var lyft, honum barið í einhverja bók og „slegið“. – Já íbúðin var keypt á heila MILLJÓN.“

Þetta skrifar Signa Hrönn Stefánsdóttir, tveggja barna móðir frá Akureyri, á Facebook-síðu sína í gær þar sem hún lýsir baráttu fjölskyldunnar við lánastofnanir í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008. Fjölmargir hafa deild færslu Signu Hrannar í dag.

„Í gærkveldi skelltum við Ljómatúni 11 í lás í hinsta sinn eftir ógeðslega erfiðar undanfarnar vikur,“ skrifar hún og lýsir hún því hvernig fjölskyldan hafði séð fyrir sér að búa þar næstu tíu, tuttugu árin. 

„Við pössuðum ekki inn í 110% leiðina. Íbúðalánasjóðslánið var 109% en lánin sem hvíldu á eignum foreldra okkar féllu ekki þar undir. Foreldrarnir okkar reyndu þá að falla undir 110% leiðina en fengu ekki heldur þar sem þau voru ekki greiðendur af láninu. Sem sagt þeir sem höfðu fengið lánsveð fengu aldrei leiðréttingu,“ skrifar hún og bætir við að fjölskyldan hafi barist.

Hefur tekið á andlega og líkamlega

Signa segir í samtali við mbl.is að viðbrögðin við pistlinum hennar hafi vægast sagt verið ótrúleg. „Ég varð klökk við að lesa öll kommentin,“ segir hún og bætir við að hún geri sér grein fyrir því að þau séu ekki ein í þessari stöðu. Tæplega 600 manns höfðu deilt pistlinum á Facebook um hádegisbil í dag.

Hún spyr hvort þetta sé vilji ráðamanna, að missa allt ungt fjölskyldufólk úr landi. Fjölskyldan hyggst flytja til Noregs. „Ég ætla ekki að búa í 10 fermetra herbergi. Leigumarkaðurinn á Íslandi er orðinn jafn dýr og í Noregi. Leigan hér er 200 þúsund krónur íslenskar og leigan er 200 þúsund krónur íslenskar í Noregi. Miklu meiri kaupmáttur er í Noregi,“ segir hún. 

„Það eina sem heldur í mann er fjölskyldan, amma og afi. Það verður erfitt að fara frá þeim en maður verður að hugsa um framtíð barnanna sinna,“ segir hún en hjónin eiga saman tvær dætur, eina fjögurra ára og aðra níu mánaða.

„Við höfum í hús að venda því sem betur fer eigum við góða fjölskyldu. Því miður hafa ekki allir það svo gott,“ segir hún. Hún segist ekki skilja hvernig þetta þjóðfélag virki lengur, þetta geti ekki gengið svona lengur.

Baráttan hafur tekið á hana líkamlega og andlega, og segir hún að þetta sé miklu erfiðara en fólk geri sér grein fyrir. „Auðvitað er þetta dauður hlutur en þetta er samt heimilið okkar og átti að vera griðastaður fjölskyldunnar áfram, griðastaður barna minna, þau eru ekki dauðir hlutir,“ skrifar hún.

 „Ekkert breytir því að við hjónin sitjum uppi með 34 milljón króna skuld á bakinu og ekkert heimili. Undanfarnar vikur hafa verið mjög erfiðar, þetta varð allt í einu eitthvað svo raunverulegt. Þrátt fyrir að hafa vitað lengi í hvað stefndi þá var ofboðslega erfitt þegar að því kom.

Pakka öllu ofan í kassa, koma búslóð í geymslu og flytja inn í eitt herbergi til foreldra minna. Þetta var kannski enn erfiðara þar sem mín stoð og stytta, hann Reynir minn var úti í Noregi að vinna og Rakel Sara vildi bara alls ekki flytja úr bleika herberginu sínu. Hún vildi eiga heima „heima hjá sér“ eins og hún orðaði það,“ skrifar hún.

 Frétt mbl.is um viðbrögð Íbúðalánasjóðs við máli hjónanna.

Barátta fjölskyldunnar við lánastofnanir hefur tekið á líkamlega og andlega, …
Barátta fjölskyldunnar við lánastofnanir hefur tekið á líkamlega og andlega, segir Signa Hrönn. mbl.is/Þorkell
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert