„Ekki auðvelt að kaupa heimili ofan af fólki“

Gunnhildur Gunnarsdóttir, staðgengill forstjóra Íbúðalánasjóðs.
Gunnhildur Gunnarsdóttir, staðgengill forstjóra Íbúðalánasjóðs. Ljósmynd/Gunnhildur Gunnarsdóttir

Gunnhildur Gunnarsdóttir, staðgengill forstjóra Íbúðalánasjóðs, segir það engu máli skipta fyrir gerðarþola hvað boðið sé í íbúð á uppboði. Uppgjörið við gerðarþola ráðist af því hvert markaðsvirði eignarinnar sé á uppboðinu. 

Signa Hrönn Stefánsdóttir, tveggja barna móðir frá Akureyri, birti pistil á Facebook-síðu sinni í gær þar sem hún segist aldrei hafa tekið þátt í jafn miklum skrípaleik eins og þegar Íbúðalánasjóður keypti íbúð fjölskyldunnar á eina milljón króna. Hún segir að fulltrúi frá ÍLS hafi verið fljót­ur að bjóða í íbúðina. „Hamr­in­um var lyft, hon­um barið í ein­hverja bók og „slegið“. – Já íbúðin var keypt á heila MILLJÓN,“ skrifaði Signa.

Gunnhildur segir það liggja alveg hreint fyrir hvernig uppgjör við gerðarþola fer fram. Fyrsta skrefið sé að fá verðmat í íbúðina samkvæmt. nauðungarsölulögum.

Frétt mbl.is: „Íbúðin var keypt á heila milljón“

Íbúðalánasjóður á yfir 2 þúsund eignir sem sjóðurinn hefur leyst til sín í nauðungarsölu og segir Gunnhildur ekki auðvelt að kaupa heimili ofan af fólki. Gætt sé að því að upplýsa fólk um þeirra réttindi og þeirra réttarstöðu. Hún segir að ekki sé innheimt kröfur sem eftir standa, þ.e.a.s. ef lánið stendur í hærri krónutölu en markaðsvirði íbúðarinnar. 

„Ef einhver skuldar 30 milljónir og íbúðin fer á 25 milljónir þá skuldar viðkomandi einstaklingur okkur áfram fimm milljónir. Sú fjárhæð myndar kröfur á hendur viðkomandi einstaklings en safnar hvorki vöxtum né er innheimt,“ segir hún og bætir við að reynt sé að koma til móts við fólk.

„Fólk getur sótt um aðfá þessa kröfu fellda niður að fimm árum liðnum. Þá er eins og fólk hafi aldrei lent í neinu og getur sótt um lán aftur,“ segir hún. Þá er fólki boðið að leigja eignirnar í ár og jafnvel lengur að sögn Gunnhildar. Leiguverðið ákveður ýmist sýslumaður eða fundið út frá leigugrunni Hagstofunnar. Þá segir hún fólk geta sótt um að kaupa eignina aftur ef það getur gert upp kröfuna. 

„Krafan fæst á 50 prósent. Ef viðkomandi greiðir helming þá fellum við hinn helminginn á móti,“ segir hún. 

Reynir Svan Sveinbjörnsson og Signa Hrönn Stefánsdóttir.
Reynir Svan Sveinbjörnsson og Signa Hrönn Stefánsdóttir. Ljósmynd/Signa Hrönn Stefánsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert