Forseti ASÍ hvetur til þess að afl aðildarfélaga og félagsmanna Alþýðusambandsins verði sameinað undir einum fána 110 þúsund félagsmanna til þess að hámarka þrýstinginn og herkostnað atvinnurekenda þegar í upphafi baráttunnar sem nú stendur yfir. Kom þetta fram í ræðu Gylfa Arnbjörnssonar á baráttufundi verkalýðsfélaganna í Reykjanesbæ í gær. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að ef aðrir hópar innan ASÍ efndu til verkfalla, eins og Starfsgreinasambandið hefur þegar gert, mætti búast við að 100 þúsund félagsmenn yrðu komnir í verkfall undir lok mánaðarins.
Gylfi sagði í ávarpi í 1. maí blaði Vinnunnar að íslenskur vinnumarkaður logaði nú í illdeilum og fyrirsjáanleg væru mikil átök á næstu vikum. Rakti hann það til þess að kjarasamningar sem ríki og sveitarfélög gerðu við kennara og háskólamenn í kjölfar kjarasamninga ASÍ og BSRB í fyrravetur og samninga ríkisins við lækna í byrjun þessa árs.
„Það á öllum að vera ljóst að það verður engin sátt um það að almennt launafólk axli eitt ábyrgð á forsendum gengis og verðstöðugleika á meðan aðrir taki sér launahækkanir svo tugum prósenta skipti. Krafan er því að kjör okkar fólks verði leiðrétt miðað við það sem á undan er gengið,“ skrifar forseti ASÍ.
Í ræðu sinni rifjaði Gylfi upp að aðildarfélög ASÍ hafi löngum verið treg að grípa til verkfallsvopnsins því samfélagslegur kostnaður þess væri mikill og því fylgdi mikil ábyrgð notkun þess. „Það er langt síðan við höfum beitt þessu vopni okkar en ég lít hins vegar þannig á að það sé búið að stilla almennu launafólki upp við vegg og við eigum engra annarra kosta völ [...].“
Gylfi segir í samtali við Morgunblaðið að ekki hafi verið ákveðið að fara í samstilltar verkfallsaðgerðir allra félaga innan ASÍ. „Við skulum þó vera minnug þess að þegar allir taka á árinni verður álagið á hvern og einn minna, en sameinað afl okkar í samstöðunni þeim mun meira,“ sagði Gylfi í ræðunni í Reykjanesbæ.
Atkvæðagreiðslan hefst næstkomandi mánudag og stendur til 10. maí. Nær hún til rúmlega 2.100 hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu.
Greidd verða atkvæði um ótímabundið verkfall sem hefst 27. maí ef samningar hafa ekki náðst fyrir þann tíma. Verkfallið mun hafa áhrif á allar heilbrigðisstofnanir sem ríkið rekur auk annarra vinnustaða hjúkrunarfræðinga hjá hinu opinbera.
Ólafur G. Skúlason vísar til þess að samninganefnd hjúkrunarfræðinga hafi fundað með fulltrúum ríkisins í vetur. Hjúkrunarfræðingar vísuðu deilunni til ríkissáttasemjara fyrir mánuði og segir Ólafur að síðan þá hafi verið haldnir þrír árangurslausir samningafundir. Í tilkynningu félagsins kemur fram að ekki sé að merkja mikinn samningsvilja hjá samninganefnd ríkisins og því sjái félagið sig nú knúið til að kanna hug félagsmanna til verkfalls.
Samninganefnd hjúkrunarfræðinga hefur lagt áherslu að hækka dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga þannig að þau endurspegli bæði ábyrgð og menntun hjúkrunarfræðinga. „Markmið okkar er að gera þau samkeppnishæf við laun annarra stétta háskólafólks hjá ríkinu,“ segir Ólafur. Hann segir að meðal dagvinnutekjur hjúkrunarfræðinga séu nú 14-25% lægri. „Hjúkrunarfræðingar sætta sig ekki lengur við það að vera á lægri enda launaskala háskólamanna. Ríkið sýndi það með samningum við lækna og kennara í vetur að það er svigrúm til launahækkana. Nú er tímabært að hækka laun hjúkrunarfræðinga,“ segir Ólafur.
Margir hjúkrunarfræðingar sögðu upp störfum í byrjun árs 2013. Þá voru launin hækkuð með svokölluðu jafnlaunaátaki. Ólafur segir greinilegt að það hafi dugað skammt því launamunurinn hafi ekkert lagast.
„Við vonum innilega að það verði samið áður en til verkfalls kemur. Það er búið að herja á heilbrigðiskerfið með verkföllum og vonandi verður það ekki raunin með hjúkrunarfræðinga. Við erum að missa hjúkrunarfræðinga í önnur störf og til útlanda. Við þurfum á starfskröfum þeirra að halda,“ segir Ólafur.