MMR kannaði hug Íslendinga til þess að loka flugbraut 06/24 (oft nefnd neyðarbraut) á Reykjavíkurflugvelli. Niðurstöður könnunarinnar voru þær að 78% Íslendinga eru andvíg því að brautinni verði lokað. Sé aðeins horft á íbúa höfuðborgarsvæðisins vilja 74% ekki að brautinni verði lokað. Sé aðeins horft á Reykjavík þá eru 68% íbúa andvíg lokun brautarinnar.
Hjartað í Vatnsmýri, sem barist hefur gegn lokun brautarinnar, segir í tilkynningu að þetta séu mikil tíðindi. Vilji landsmanna sé skýr og sérstaklega sé merkilegt að sjá 68% Reykvíkinga andvíg lokun brautarinnar.
„Þessi niðurstaða sýnir einhug landsmanna og höfuðborgarbúa í flugvallarmálinu. Hér er spurt um nákvæmlega það sem er að gerast núna á vellinum, tilraunir borgarinnar til að loka neyðarbrautinni. Enginn þarf nú að efast um afstöðu landsmanna til neyðarbrautarinnar. Niðurstaðan hlýtur að vekja stjórnmálamenn til umhugsunar,“ segir Friðrik Pálsson, formaður Hjartans í Vatnsmýri.
Könnunin var unnin af MMR dagana 16. - 21. apríl 2015 og spurt var: „Ert þú fylgjandi eða andvíg(ur) því að flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, oft nefnd neyðarbraut, verði lokað?“
Úrtakið voru Íslendingar á aldrinum 18 ára og eldri. Svarfjöldi: 1.001 einstaklingur.