Dauðir kúnnar, dauðir kettir, fat-finger og algjört flush

Tungutakið á mörkuðunum getur verið ansi skrautlega.
Tungutakið á mörkuðunum getur verið ansi skrautlega. SPENCER PLATT

Laga spreddið, að vera á næsta tikki, stokkurinn, vera þéttur á því og að upplifa algjört flush er tungutak sem er mörgum framandi. Þetta hefur aftur á móti verið áberandi í fjölmiðlum síðustu tvær vikurnar meðan aðalmeðferð er í gangi í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Eru þessi orðtök og fleiri til reglulega notuð í símtölum sem eru spiluð í dómsal eða í máli vitna sem svara spurningum saksóknara og verjanda.

Flestir vinahópar eða starfsstéttir hafa ákveðið tungutak eða „lingó“ og eru fjármálastarfsmenn þar engin undantekning. Það tungutak sem hér um ræðir er þó væntanlega enn sérsniðnara og á við um einstaklinga sem stunda markaðsviðskipti og þá aðallega hlutabréfaviðskipti. Áttu þau sér að mestu stað milli starfsmanna Kaupþings banka.

Mbl.is ákvað að taka saman helstu orðtökin og skýra þau nánar fyrir hinn venjulega leikmann. Þess skal getið að skilningur ákæruvalds og ákærðu hefur verið mismunandi í nokkrum tilfellum og þá virðast ákærðu einnig leggja örlítinn mun í sumum tilfellum. Þessi listi ætti engu að síður að gefa góða vísbendingu um hvað er átt hverju sinni.

  • Auka seljanleika – Hafa mörg kaup- og sölutilboð í Kauphöllinni þannig að auðvelt sé fyrir fjárfesta að kaupa og selja bréf sem gerir þau eftirsóttari, verðmætari og með minni fjárfestingakostnaði.
  • Stokkurinn – Markaðurinn (Kauphöllin)
  • Stokkurinn dauður – Lítill seljanleiki
  • Utanþingsmarkaður – Markaður fyrir utan hefðbundin Kauphallarmarkað, t.d. þegar tveir aðilar semja um kaup sín á milli.
  • Safna í pakka – Kaupa upp bréf og safna saman fyrir stórar sölur (venjulega á utanþingsmarkaði).
  • Styrkja biddið – Fjölga kauptilboðum eða hækka kaupverð í bréf.
  • Þétta tilboðið – Fjölga kauptilboðum á ákveðnu verðbili.
  • Kaupa á askinu/fara upp í askið – Kaupa hlutabréf á því verði sem söluaðili biður um.
  • Kippa í [nafn á hlutabréfum] – Sama og „kaupa á askinu.“
  • Halda við – Styðja við gengi (umdeilt milli saksóknara og ákærðu).
  • Vera þéttur – Vera með mörg tilboð í stokknum og auka þannig seljanleika.
  • Að vera víðir á því – Andstæðan við að vera þéttur á því.
  • Setja niður hælana – Koma sterkur inn í kaupum á bréfum (ákærðu)/Stoppa verðlækkun í ákveðnu gengi (saksóknari).
  • Stoppa frjálst fall – Koma í veg fyrir verðlækkun með að handstjórna verði (saksóknari)/Draga úr lækkun með að auka seljanleika og minnka sveiflur (ákærðu).
  • Koma sterkur inn – Vera með mörg tilboð í stokknum
  • Heilbrigð/skynsöm verðmyndun – Andstæðan við óheilbrigða verðmyndun og bendir til lögbrots (saksóknari)/Sveiflulítil verðmyndun (ákærðu).
  • Vera firm á verðinu – Vera ákveðinn/Vera með mikið af kauptilboðum.
  • Laga spreddið – Laga mismun í gengi á milli tveggja markaða (hér á við um markaði á Íslandi og í Svíþjóð) og hagnast á mismuninum.
  • Þetta kostaði – Verðið á þessu var (saksóknari)/Fjöldi bréfa var (ákærði), s.b. „þetta kostaði 100k“.
  • Á næsta tikk – Tikk er heil tala í gengi. Verðbilið 867 og 868 eru t.d. tvö tikk.
  • Halda sig innan 5% - Passa að fara ekki yfir flöggunarskyldu í Kauphöllinni.
  • Kauphallarhermir – Það sem blaðamaður vonaði að væri einhverskonar HAL9000 eða Oculus Rift tækni, en er í raun heldur óáhugavert forrit sem sýnir kaup og sölu í Kauphöllinni á einföldu grafi og minnir frekar á hugbúnað frá 1995.
  • Dauður köttur – Sjá frétt Hvað er dauður köttur? 
  • Rífa upp – Hækka verðið.
  • Hvernig ertu í límingunum – Hvernig hefur þú það.
  • Pumpa bréfum á markaðinn – Setja mikið af bréfum á sölu.
  • Að kalla eitthvað – Að skipa fyrir.
  • Algjört flush – Mikil lækkun á markaði, s.b. „opnunin var algjört flush“
  • Taka inn á sig – Kaupa bréf (á sama tíma og aðrir hafa verið að losa sig við bréf).
  • Dauðir kúnnar – Lítill kaupvilji á markaðinum.
  • Kasta bréfum – Selja bréf.
  • Éta bréfin – Kaupa hlutabréf (í stórum stíl).
  • Fat-finger – Einhver sem gerir mistök á markaði, komið frá því að einhver sé með svo stóra putta að hann hafi óvart rekið sig í vitlausan takka.
  • Hamra niður – Lækka gengi bréfa með að selja þau.
  • Kínaveggir/Kínamúrar – Ósýnilegir eða óáþreifanlegir veggir milli deilda sem eiga að hindra ákveðið upplýsingastreymi þar á milli. Meðal annars notast við aðgangsstýringar, samskipti, tölvukerfi o.fl.
  • Strákarnir – Hlutabréfamiðlunin.
  • Leyfa þessu að sunka – Leyfa hlutabréfum að lækka.
  • Kvóta út – Selja.
  • Smassa á mig – Senda mér SMS skeyti.
  • Koma aftur inn á tikkunum – Vera virkur á markaðinum.
Í réttarsalnum hafa verið spilum fjöldamörg símtöl. Í flestum þeirra …
Í réttarsalnum hafa verið spilum fjöldamörg símtöl. Í flestum þeirra er sérstakt tungutak fjármálamarkaðanna ekki langt undan.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert