„Verkfall BHM hefur þegar haft víðtæk áhrif og yfirlæknir krabbameinsdeildar Landspítalans hefur sagt að ekki sé hægt að halda svona endalaust áfram, aðgerðirnar munu hafa áhrif á sjúklinga og meðferð þeirra. Ríkið er beinn aðili í viðræðunum en lítið þokast og ekki er sýnt á nein spil.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs í umræðu á Alþingi í dag um stöðuna á vinnumarkaði. Katrín gerði verkfallsaðgerðir BHM og SGS að umræðuefni og gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir ranga forgangsröðun. Hún sagði að staðan á vinnumarkaði á landinu væri vægast sagt orðin dökk.
Benti Katrín á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kom fram að með aðgerðum sínum ætlaði ríkisstjórnin að „eyða þeirri pólitísku óvissu sem hefur verið áberandi þáttur í íslensku þjóðlífi á síðastliðnum árum. Unnið verður að víðtækri sátt með aðilum vinnumarkaðsins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar,“ las Katrín úr stefnuyfirlýsingunni. „Þetta stóð í stjórnarsáttmálanum herra forseti en staðan er sú að menn ræða hér um að níundi áratugurinn sé kominn aftur með tilheyrandi köldu vori og átökum á vinnumarkaðinum.“
Að mati Katrínar hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar sagt eitt og annað í sambandi við kjaramálin og vekur það óvissu. Benti Katrín á að upphaflega hefði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra talað fyrir krónutöluhækkun. „En hvað finnst ráðherra nú?“ spurði Katrín. Benti hún einnig á að á meðan Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði sagt að ríkið gæti ekki leyst deilur á almennum vinnumarkaði hefur forsætisráðherra sagt að ríkið gæti hugsanlega hjálpað til, til dæmis með húsnæðismarkaði. „En þau útspil eru föst í fjármálaráðuneytinu og þangað eru send orkustykki til að reka á eftir vinnu með húsnæðismál,“ sagði Katrín.
Katrín spurði jafnframt hvort forgangsröðun ríkisstjórnarinnar væri líkleg til þess að greiða fyrir lausn kjarasamninga. Hún nefndi í því samhengi lækkun veiðigjalda, afnám auðlegðarskatts og hækkun matarskatts. „Staðreyndin er sú að aðgerðirnar eru líklegri til þess að herða hnútinn fremur en hitt því engin þeirra gagnast þeim lægst launuðu,“ sagði Katrín og bætti við að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar hefðu tugir milljarða farið í það að ívilna þeim efnameiri.
„Ég veit að þjóðin lítur til forsætisráðherra eftir hans skilaboðum í þessari deilu,“ sagði Katrín. „Telur hann að þessi forgangsröðun sé skynsamleg til að stuðla að stöðugleika á vinnumarkaði?“ spurði og Katrín og spurði einnig hvernig samninganefnd ríkisins mundi beita sér í deilunni við BHM.
Í svari Sigmundar Davíðs var forsætisráðherrann sammála því að staðan á vinnumarkaðinum væri gríðarlega stórt og mikilvægt úrlausnarefni. „Við stöndum frammi fyrir mjög erfiðri stöðu á vinnumarkaði en ekki vegna minnkandi verðmætasköpunar, atvinnuleysis eða niðurskurðar til velferðarmála eða aukins ójöfnuðar. Nei, ekki einu sinni vegna verðbólgu heldur þvert á móti,“ sagði forsætisráðherra. Sigmundur sagði að hagvöxtur og aukning verðmætasköpunar hér á landi væri ein sú mesta í þróuðum ríkjum og atvinnuleysi með því minnsta í Evrópu. Benti hann einnig á að framlög ríkistjórnar velferðarmála hefðu verið stóraukin frá síðasta kjörtímabili.
„Ójöfnuður er enn að minnka og misskipting er líklega orðin sú minnsta í heimi og verðbólgan hefur loksins loksins haldist undir verðbólgumarki Seðlabankans til lengri tíma,“ sagði Sigmundur Davíð.
Sigmundur Davíð vitnaði í orð Sigurðar Bessasonar, formanns Eflingar, sem birtust í Vinnunni, tímariti Eflingar. Þar var Sigurður spurður hvernig hægt væri að komast úr leiðréttingarfasanum með háum launahækkunum og inn í stöðugleikafasa með mun minni kauphækkunum. Að sögn Sigurðs geta kjarasamningar farið í uppnám náist ekki ásættanleg niðurstaða í viðræðunum. En einnig þarf að ræða hvernig fólk vill sjá framtíðina á sviði kjaramála. Nefnir Sigurður norrænu leiðina þar sem kaupmáttur er byggður upp hægt en örugglega í lágri verðbólgu og meiri jöfnuði.
„Þarna hittir Sigurður naglann á höfuðið,“ sagði Sigmundur. „En það er undarlegt að heyra nálgun stjórnarandstöðunnar. Ég geri mér greini fyrri því að það er of mikils ætlast að andstaðan sýni mikla ábyrgð í þessari erfiðu stöðu eða leggi fram lausnir. Engar hef ég heyrt úr þeirri átt,“ sagði forsætisráðherra.
Sagði hann jafnframt að þarna væri stjórnarandstaðan að saka ríkisstjórnina um að bera ábyrgð á þessari stöðu með því að framfylgja samningum sem síðasta ríkisstjórn gerði. Nefndi Sigmundur í því samhengi samninga um að leggja niður raforkuskatt og auðlegðarskatt.
„Það eina sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa er að kenna núverandi ríkisstjórn um að framfylgja eigin samningum. Vissulega er erfið staða á vinnumarkaði en gleymum því ekki að gríðarleg tækifæri eru til staðar til að byggja á þeim gríðarlega árangri sem hefur náðst hér í landinu á undanförnum tveimur árum.“
Lagði Sigmundur áherslu á það að launþegahreyfingin hefði ekki farið fram á neitt frá stjórnvöldum heldur tekið fram að hún sneri sér að atvinnurekendum og að ekki mætti gleyma því hlutverki vinnuveitenda eða fulltrúa þeirra sem semja.
Að sögn Sigmundar getur ríkisstjórnin lagt lagt ýmislegt til málanna ef samið er á þann hátt að það ógni ekki efnahagslífi þjóðarinnar, ýti undir verðbólgu og vegi að velferð í landinu. „Þá mun ríkisstjórnin auðvitað geta lagt ýmislegt til málanna til þess að auka enn á ráðstöfunartekjur fólks.“
„En hún mun ekki kasta eldiviði eða spreki á verðbólgubálið ef menn geri verðbólgusamninga,“ bætti Sigmundur við.