Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, segir þann aðbúnað sem átti að bjóða honum og öðrum föngum sem afplána á Kvíabryggju upp á við aðalmeðferð stóra markaðsmisnotkunarmáls Kaupþings ekki uppfylla ákvæði mannréttindasáttmálans.
Krafðist hann þess að vera ekki læstur inn í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg meðan málið væri flutt fyrir héraðsdómi. Bauð hann jafnframt bíl og bílstjóra til að minnka kostnað stofnunarinnar við flutninga.
Um er að ræða níunda dag aðalmeðferðar í málinu en Hreiðar Már afplánar nú fimm og hálfs árs fangelsisdóm á Kvíabryggju en hann var sakfelldur í Hæstarétti í febrúar í Al Thani-málinu svokallaða.
Hreiðar, Sigurður Einarsson, fv. stjórnarformaður bankans og Magnús Guðmundsson, fv. bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru allir dæmdir í fangelsi í Al Thani málinu og afplána Hreiðar og Magnús nú dóm sinn.
Fangar hafa rétt til að vera viðstaddir aðalmeðferð mála sinna fyrir dómstóli. Þar sem Kvíabryggja er í um 2,5 klukkustunda ökufjarlægð frá Reykjavík hafa fangelsisyfirvöld neitað þeim að keyra fram og til baka á hverjum degi og sagði Páll Winkel, fangelsismálastjóri, í samtali við mbl.is að það væri vegna fjárskorts.
Í ávarpi Hreiðars í dómsal í dag sagði hann að á þeim tveimur mánuðum sem hann hefði setið inni hefðu margir fangar verið keyrðir fram og til baka þegar mál yfir þeim væru tekin fyrir. „En íslenska ríkið er ekki tilbúið að keyra mig fram og til baka,“ sagði Hreiðar í dómsal í morgun.
Sagði hann að bjóða ætti þeim upp á að vera á gæsluvarðhaldsgangi í Hegningarhúsinu í litlum klefum.
Sagði hann það reyna mjög mikið á menn að vera læsta inn í svo litlu rými. Sagðist hann jafnvel hafa boðið fram bíl og bílstjóra til flutningana til að minnka kostnað stofnunarinnar en því verið hafnað.