Símtalið umdeilda spilað í dómsal

Hreiðar Már Sigurðsson á leið í héraðsdóm.
Hreiðar Már Sigurðsson á leið í héraðsdóm. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar forstjórinn eða stjórnarformaðurinn fundu ekki nýja hluthafa til að kaupa bréf í Kaupþingi þá bjuggu þeir þá bara til.

Þetta sagði Bjarki Diego í símtali við Jóhannes Bjarna Björnsson sem spilað var fyrir dómi í morgun. Símtalið átti sér stað 2010 og eru þeir að ræða mál sérstaks saksóknara gegn Kaupþingsmönnum.

Bjarki hafði unnið sem útlánastjóri hjá Kaupþingi og er ákærður í málinu fyrir þátt sinn í að samþykkja útlán bankans til þriðja aðila til að kaupa bréf í Kaupþingi með veði í bréfunum sjálfum. Í símtalinu segir hann að það hafi verið lánað út á verðbréf með lágu eigin fé. Hann hafi svo bara litið á áhættumatið, en að forstjórinn hafi verið búinn að selja þetta inn í einhver félög.

Jóhannes, sem var lögmaður Ingólfs Helgasonar, annars ákærðu í málinu, segir að eftir að hafa lesið rannsóknarskýrslu Alþingis og skoðað málið þá sé ljóst að þetta hafi verið markaðsmisnotkun og Bjarki játar því í símtalinu. 

Sagði Bjarki forstjórann og stjórnarformanninn vera veikasta í þessu máli, enda hafi þeir tekið ákvarðanir um viðskiptin og þeirra hlutverk verið að finna nýja hluthafa. Ef þeir fundu ekki nýja hluthafa, þá „bara bjuggu þeir þá til,“ sagði Bjarki. Jóhannes segir í framhaldinu að það blasi við að með þessu hafi Bjarki verið að halda verði bréfanna uppi.

Mikið hefur verið deilt um hvort að rétt væri að leggja símtalið fram sem sönnunargagn, en þegar það átti sér stað var ekki búið að ákæra í málinu og Jóhannes hafði ekki verið skipaður verjandi Ingólfs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert