„Það má ekkert út af bregða“

Jón myndar verkefnið í bak og fyrir. Hér er hann …
Jón myndar verkefnið í bak og fyrir. Hér er hann í Abu Dhabi við upphaf sólarflugsins. ljósmynd/Jón Björgvinsson

„Maður fær stundum í magann þegar maður sér hvað litlu má muna; bæði varðandi veður og annað. Það má ekkert út af bregða til að þetta gangi upp,“ segir Jón Björg­vins­son, frétta­rit­ari og ljós­mynd­ari, en hann og son­ur hans, Daní­el Jóns­son, raf­magns­verk­fræðing­ur, taka nú þátt í vinnu við fyrsta flugið um­hverf­is jörðina á flug­vél sem geng­ur fyr­ir sól­ar­orku.

Feðgarnir eru staddir í kín­versku borg­inni Nanj­ing, en þar var sólarorkuflugvélinni Solar Impulse 2 lent eftir sjötta legg hennar af tólf þann 21. apríl sl. Lagt var af stað frá Abu Dhabi þann 9. mars sl. og áætlað er að hnattflugi vélarinnar ljúki í lok júlí eða byrjun ágúst á sama stað.

Jón myndar verkefnið í bak og fyrir, en sonur hans kemur að tæknilegu hliðinni. Feðgarnir hafa unnið að undirbúningi fyrir verkefnið síðustu mánuðina.

Munu fljúga í 5 daga og nætur

Nanj­ing er síðasti áfangastaður vél­ar­inn­ar áður en kem­ur að metnaðarfyllsta legg ferðar­inn­ar en næst verður henni flogið í fimm daga og næt­ur án þess að lenda rúma 8.500 kíló­metra yfir Kyrra­hafið til Honolulu í Hawaii.

„Fram að þessum tíma var varla um það að ræða að fljúga vélinni daga og nætur vegna stutts sólargangs,“ útskýrir Jón, „en frá og með 5. maí verður beðið eftir rétta veðurglugganum til að fljúga yfir Kyrrahafið. Það er náttúrulega stóra spurningamerkið í þessu öllu saman. Það hefur aldrei verið prófað áður og enginn veit hvaða óvæntu uppákomur bíða þar, en menn eru að gera sig tilbúna í það.“

Tveir flugstjórar skiptast á að fljúga vélinni, en það eru …
Tveir flugstjórar skiptast á að fljúga vélinni, en það eru þeir Bertrand Piccard og Andre Borsch­berg. ljósmynd/Jón Björgvinsson

Spennandi að brjóta blað

Tveir flugstjórar skiptast á að fljúga vélinni, en það eru þeir Bertrand Piccard og Andre Borsch­berg. Borsch­berg sneri aft­ur til Evr­ópu fyr­ir skömmu til að fá meðferð við vírus sem hann fékk en hann er kominn aftur til Kína og undirbýr sig nú fyrir Kyrrahafsflugið.

„Piccard er meiri hugsuður en Borschberg sá sem stjórnar verkefninu. Sá síðarnefndi er reyndari flugmaður og í upphafi var það skilyrði að hann flygi yfir Kyrrahafið. Hann fékk auðvitað þennan vírus en hann er allur að jafna sig og verður kominn í gott form þegar vélinni verður flogið þarna yfir.“

Jón segir flugmennina afar spennta fyrir verkefninu, enda sé spennandi að fljúga vél sem þessari. „Þeir segja að það muni hjálpa þeim að halda vöku hversu spennandi verkefnið er,“ segir hann. „Það er auðvitað mjög spennandi að brjóta blað.“

Hér má sjá flugstjórnarklefann, þar sem aðeins er pláss fyrir …
Hér má sjá flugstjórnarklefann, þar sem aðeins er pláss fyrir einn flugstjóra í einu. ljósmynd/Jón Björgvinsson

Leggja mikið traust á vélina

Jón segir teymi veðurfræðinga vinna hörðum höndum að því að finna besta veðurgluggann, en erfitt sé þó að spá fyrir um nákvæmt veður fimm daga fram í tímann. Á öðrum eða þriðja degi ætti þó að koma í ljós hvernig veður verður alla leiðina, og ef það verða ekki þau veðurskilyrði sem vonast var eftir verður mögulega hægt að snúa vélinni til Japan. 

„Annars væri í raun hvergi hægt að lenda þessari vél og hún þyrfti líklega að fara í hafið. Þetta er það stór vél að ef hún lendir á venjulegum velli fer hún ekkert aftur í loftið.“ Hann seg­ir kost­inn þó þann að sól­ar­orku­knúna vél­in geti verið enda­laust á lofti, og þurfi því ekki að lenda ef veður leyf­ir það ekki.

Jón segir mikið traust vera lagt á vélina, en erfitt sé að segja til um það hversu mikið hið mannlega úthald verður. Aðeins einn flugmaður getur verið í vélinni í einu, og mun hann þurfa að halda sér vakandi í fluginu yfir Kyrrahafið þar sem lítil sem engin sjálfstýring er í vélinni.

Óvíst er hvernig muni ganga fyr­ir flug­manninn að halda sér vak­andi, en hann hefur æft sig í 72 klukku­stunda hermi til að und­ir­búa sig. Flugmaðurinn mun þó geta lagt sig í um 20 mín­út­ur í senn, og ef vél­in fer að hegða sér und­ar­lega á þeim tíma byrj­ar skynj­ari sem flugmaður­inn er með á sé að titra og vek­ur hann.

Daní­el Jóns­son er raf­magns­verk­fræðing­ur og kemur að tæknilegu hlið verkefnisins.
Daní­el Jóns­son er raf­magns­verk­fræðing­ur og kemur að tæknilegu hlið verkefnisins. ljósmynd/Jón Björgvinsson

Plan b að fara í hafið

Að sögn Jóns hefur vélin 10% upp á að hlaupa svo hleðslan og batteríin dugi til að ganga í gegnum nóttina. Það megi því ekki hlaðast upp mörg vandamál á fimm dögum svo vélin fari ekki í sjóinn. Ef sólarsellur fari til að mynda að bila muni vélin að öllum líkindum ekki ná þeirri hleðslu sem hún þarf á að halda.

„Það er reynt að taka sem minnsta sénsa og allt sem hægt er að skipuleggja er skipulagt,“ segir Jón og bætir við að flugmennirnir hafi farið í Norðursjó í vetur til að læra að bjarga sér á hafi úti í gúmmíbjörgunarbáti. „Það er plan b; ef flugið til Honolulu klikkar verða þeir að fara í hafið.“ Hann segir Kyrrahafið þó ekki besta hafið til að fara í, þar sem stærð þess geri björgunarstörf erfið. „Það væri ekki hægt að ná í þá í þyrlu því þetta er svo langt úti á hafi svo þeir verða að geta bjargað sér einir í þrjá daga þar til næsta skip kemur að ná í þá. “

Jón myndar sólarorkuflugvélina úr þyrlu.
Jón myndar sólarorkuflugvélina úr þyrlu. ljósmynd/Jón Björgvinsson

20 stiga frost í flugstjórnarklefanum

Að ýmsu þarf að huga, en vélin skapar ýmis vandamál fyrir flugumferðarstjórn sökum stærðar, lítils hraða og óstöðugri flughæð. Vélin fer aðeins á um 50-100 kílómetra hraða á klukkustund og hækkar og lækkar flug stöðugt. Vel hefur þó gengið að hliðra til og að sögn Jóns hafa sjálf flugin gengið mjög vel. 

Flugmennirnir þurfa að vera vel dúðaðir þar sem vélin nær mikilli hæð, eða um 10 kílómetrum, og þar sem hún er ekki með jafnþrýstibúnaði né vel einangruð verður nístingskalt í flugstjórnarklefanum. „Þeir dúða sig eins og fjallgöngumenn og sjúga súrefni,“ segir Jón og bætir við að kuldinn nái 40 stiga frosti á daginn, en þá sé um 20 stiga frost í klefanum. Á næturnar lækkar hún svo flugið og þá getur orðið funhiti.

Sá sem flýgur vélinni getur þó ekki staðið upp, og lítið hreyft sig á meðan fluginu stendur. Þar af leiðandi er sætið jafnframt klósett, og hægt er að halla því aftur. Þá er nægur matur í flugstjórnarklefanum og rými til þess að flugmaðurinn geti stundað jóga í sætinu.

Stórt teymi kemur að verkefninu.
Stórt teymi kemur að verkefninu. ljósmynd/Jón Björgvinsson

Vekja athygli á lífrænum orkugjöfum

Aðstand­end­ur Sol­ar Impul­se 2 von­ast til þess að vekja at­hygli á líf­ræn­um orku­gjöf­um með til­raun sinni til að fljúga í kring­um hnött­inn. Áætlaður heild­arflug­tími er 25 dag­ar yfir fimm mánuði.

Að sögn Jóns er stórt teymi sem stend­ur að baki verk­efn­inu, eða alls um 150 manns. Þar af eru meðal ann­ars verk­fræðing­ar, veður­fræðing­ar, markaðssér­fræðing­ar, lækn­ar, nær­ing­ar­fræðing­ar og ljós­mynd­ar­ar. Verk­efnið er í heild­ina upp á 150 millj­ón­ir doll­ara eða yfir 20 millj­arða króna.

„Það er gífurlegur áhugi á þessu verkefni og það kemur alltaf á óvart hversu mikill mannfjöldi fylgist með vélinni lenda,“ segir Jón að lokum.

Frétt mbl.is: Undirbúa fyrsta hnattflugið í sólarflugvél

Daníel og aðrir verkfræðingar fara yfir stöðu mála.
Daníel og aðrir verkfræðingar fara yfir stöðu mála. ljósmynd/Jón Björgvinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert