Tveir Íslendingar, þeir Haraldur Árni Haraldsson og Albert Már Eggertsson, hafa síðustu ár byggt upp útgerð og fiskvinnslu í nyrsta bæ Noregs, Gamvik.
Fyrirtækið Sædís gerir nú út þrjá báta og fleiri eru í viðskiptum. Árangur Íslendinganna hefur vakið athygli í Finnmörk og víðar og fyrirtækið hlotið viðurkenningar. Þar starfa 35-40 manns til sjós og lands og síðustu tvö ár var unnið úr 2.500 tonnum hjá fyrirtækinu hvort ár.
Félagarnir skipta dvölinni í Gamvik á milli sín og eru hluta ársins með fjölskyldum sínum á Íslandi, en hluta þess í Noregi, að því er fram kemur í umfjöllun um athafnasemi þeirra ytra í Morgunblaðinu í dag.