Felldu tillögu um aukið gagnsæi

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna felldu tillögu Sjálfstæðisflokksins um aukið gagnsæi í skólastarfi og upplýsingagjöf til foreldra á fundi borgarstjórnar í dag.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins er svohljóðandi:

„Í því skyni að auka gagnsæi í skólastarfi og upplýsingagjöf til foreldra, samþykkir borgarstjórn að skýrsla með heildarniðurstöðum um árangur reykvískra grunnskóla í lesskimun og stærðfræðiskimun, þar sem m.a. koma fram upplýsingar um árangur hvers skóla, verði birtar á heimasíðu viðkomandi skóla.“

Fram kemur í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, að markmið tillögunnar hafi verið að auka gagnsæi og upplýsingagjöf um skólastarf til reykvískra foreldra og hvetja þá þannig til að taka aukinn þátt í námi barna sinna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja, í ljósi yfirlýsinga meirihlutaflokkanna um aukið gagnsæi og upplýsingagjöf, sé athyglisvert að fulltrúar þeirra skuli fella tillöguna, ekki síst fulltrúi Pírata.

Við afgreiðslu málsins lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram eftirfarandi bókun:

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna skuli hafna því að skýrslur með heildarniðurstöðum um árangur hvers grunnskóla í stöðluðum kunnáttuprófum í lestri og stærðfræði (lesskimun og stærðfræðiskimun) verði gerðar aðgengilegar með því að birta þær á heimasíðu viðkomandi skóla ásamt skýrslu um heildarniðurstöður fyrir grunnskóla borgarinnar. Með slíkri birtingu væri stórt skref stigið í þá átt að auka gagnsæi og upplýsingagjöf um skólastarf til reykvískra foreldra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert