Kæra bankastjórnendur fyrir peningafölsun

Þórarinn Einarsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, með kæruna við lögreglustöðina …
Þórarinn Einarsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, með kæruna við lögreglustöðina á Hverfisgötu í Reykjavík í dag.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa kært stjórnendur allra banka og sparisjóða til lögreglu fyrir peningafölsun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum. Þar segir, að tilefni kærunnar sé nýútkomin skýrsla um peningakerfið sem Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gerði fyrir forsætisráðuneytið.

Þórarinn Einarsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, fór með kæruna á lögreglustöðina við Hverfisgötu í dag. Hann segir í samtali við mbl.is, að hann efist um að lögreglan verði ánægð með þetta verkefni, en hún verði að taka málið alvarlega. 

Peningasköpun banka og sparisjóða peningafölsun í skilningi laga

„Í skýrslunni er staðfest með afar skýrum hætti að bankar og sparisjóðir búa í raun til peninga þegar þeir veita lán í formi nýrra innstæðna sem svo leggjast við það peningamagn sem þegar er í umferð, en þessi peningasköpun er klárlega í andstöðu við þann einkarétt sem Seðlabanki Íslands hefur einn til þess að búa til peninga eða annan jafngildan gjaldmiðil. Það er því óhjákvæmilegt að líta svo á að peningasköpun banka og sparisjóða sé peningafölsun í skilningi 150. grein hegningarlaga,“ segja samtökin í tilkynningu. 

Þórarinn segir aðspurður, að kæran nái til allra þeirra sem beri ábyrgð á peningafölsuninni. „Þetta myndi ná 15 ár aftur í tímann miðað við fyrningarákvæðið í hegningarlögum. Þetta varðar í raun 12 ára fangelsi,“ segir Þórarinn í samtali við mbl.is.

Bankarnir hafi valdið heimilum og íslenskum efnhag skaða

Þórarinn segir málið vera pólitískt og að samtökin séu að reyna að koma af stað umræðu um málið. Samtökin fagni útgáfu skýrslu Frosta um fjármálakerfið sem sýni fram á þann skaða sem bankarnir hafi valdið heimilum og íslenskum efnahag almennt.

„Við vonum að það verði umræða um þetta; þetta veki athygli á peningasköpun bankanna og hvort þetta sé löglegt eða ekki. En við erum alveg klár á því að þetta sé lögbrot og peningafölsun,“ segir Þórarinn.

Þá hvetja samtökin sem flesta til þess að kynna sér efni skýrslunnar og styðja við þær umbætur á fjármálakerfinu sem þar sé að finna. Brýnt sé að gera úrbætur á kerfinu svo það geti farið að þjóna hagsmunum almennings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert