Nokkuð furðuleg staða er komin upp í máli sérstaks saksóknara gegn fyrrum starfsmönnum Kaupþings í stóra markaðsmisnotkunarmálinu. Sem eftirlitsaðili með markaðinum sendi Kauphöllin erindi til Fjármálaeftirlitsins (FME) varðandi mögulega markaðsmisnotkun hjá Kaupþingi, en bréf frá sama fyrirtæki er nú notað sem ein helsta vörn þeirra aðila sem ákærðir eru á kauphlið málsins, þ.e. starfsmanna eigin viðskipta bankans.
Í grunninn snýst málið um að í janúar 2009 sendir Kauphöllin erindi til FME þar sem leiddar eru líkur að markaðsmisnotkun hafi átt sér stað, með hliðsjón af miklum kaupþrýstingi bankans á eigin bréf. Seinna sendir FME það mál svo áfram til sérstaks saksóknara og réttað í því þessa dagana. Tveimur árum síðar var aftur á móti bréf sent frá FME sem gagnrýnir Kauphöllina og ásakar hana um að hafa ekki staðið undir eftirlitshlutverki sínu á markaði. Svarbréf Kauphallarinnar við þessum ásökunum virðist aftur á móti vera ákveðið tromp fyrir þá starfsmenn Kaupþings sem voru í kaupum á hlutabréfum í deild sem nefndist eigin viðskipti Kaupþings.
Forstöðumaður eftirlitssviðs Kauphallarinnar, Baldur Thorlacius, bar vitni fyrir dómstólnum í dag, en hann sendi umrætt svarbréf. Útskýrði hann meðal annars vöktunarkerfi Kauphallarinnar og bjöllur sem hringdu ef eitthvað óeðlilegt kom upp. Slíkar hringingar gátu reyndar verið all margar á dag og kom fram í máli Baldurs og samstarfsmanns hans hjá Kauphöllinni sem einnig bara vitni í dag að flestar hringingarnar hefðu átt sér eðlilegar skýringar, t.d. í nýjum fréttum á markaði o.s.frv.
Í svarbréfinu, sem eru 36 blaðsíður að lengd og var sýnt að hluta við vitnaleiðslur í dag, mótmælir Kauphöllin harðlega þeirri niðurstöðu sem FME komst að og fer yfir ástæður þess að þeir hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að hafa gott eftirlit með markaðinum.
Einmitt í þessu felst vörn starfsmanna eigin viðskipta, en við vitnaleiðslur í dag kom fram að rannsókn Kauphallarinnar til að vefengja ásakanir FME hafi verið nokkuð umfangsmikil. Kom bæði þar fram og í svörum vitna í dag að ekki hafi verið hafin rannsókn vegna markaðsmisnotkunar fyrir fall bankans, heldur hafi verið horft til tilkynningarskyldu af tengdum viðskiptum. Það hafi því í raun engar bjöllur hringt hjá Kauphöllinni sem gáfu til kynna að um markaðsmisnotkun væri að ræða.
Þá er í bréfi Kauphallarinnar tilgreint að í lokunaruppboðum sem eigin viðskipti tóku þátt í og verð hækkaði hafi verið um mjög litlar hækkanir að ræða og í flestum tilvikum hafi verð lækkað eða staðið í stað frá fyrri viðskiptadegi. Lokunaruppboð eru almennt talin mikilvæg í samhengi við markaðsmisnotkun, en þau ákvarða lokagengi dagsins og þar af leiðandi birta stöðu markaðarins út á við. „Vart getur talist óeðlilegt að sjá kauptækifæri í uppboði þegar hlutabréfaverð hefur lækkað innan dagsins,“ segir í bréfinu.
Málið flækist þó áfram því í bréfinu er sagt að þessi meinta markaðsmisnotkun falli ekki undir hefðbundnar skilgreiningar á markaðsmisnotkun sem eftirlitsaðilar víða um heim noti til að fylgjast með. Bendir Kauphöllin á að til þess að geta séð markaðsmisnotkun eins og nú er ákært fyrir, þurfi í raun að hafa mun víðtækari heimildir til upplýsingaöflunar, enda „á hin meinta markaðsmisnotkun sér dýpri rætur í blekkingum og málamyndagerningum. Dýpri rætur sem ómögulegt var að greina út frá þeim upplýsingum sem Kauphöllin hafði aðgang að og var helst á færi innanbúðarmanna og aðila sem höfðu eftirlit með bönkum að koma auga á.“
Ljóst er að í þessum orðum Kauphallarinnar felst talsverð gagnrýni á FME, en auk þess virðist þetta gefa í skyn að þrátt fyrir þau tæki og tól sem Kauphöllin hafði yfir að búa, hafi hún ekki mögulega getað séð ef um markaðsmisnotkun, eins og ákært er fyrir. Í þessu liggur einmitt vörn starfsmanna eigin viðskipta, en þeir hafa hingað til ítrekað neitað fyrir að hafa haft nokkra vitneskju um fjármögnun lánanna sem veitt voru til að fjármagna kaup þriðja aðila á bréfunum eða haft yfirsýn yfir Kínamúra sem myndu gefa þeim slíkar upplýsingar.
Þetta ýtir aftur á móti undir að ef markaðsmisnotkun átti sér stað, þá var það á höndum þeirra sem höfðu yfirsýnina yfir Kínamúrana og vissa af bæði sölu og kaupum á bréfunum.
Ákærðu voru þó ekki þeir einu sem sáu nýtilega punkta í bréfinu, því saksóknari hjó eftir því að erfitt væri að greina markaðsmisnotkun þegar verið væri að hægja á verðlækkun, en slíkt er hluti ákærunnar. Gekk hann á Baldur með það að vegna þess hversu óvenjuleg hin meinta markaðsmisnotkun væri, þá hefðu kerfi Kauphallarinnar einmitt ekki merkt hana. Tók Baldur undir að slíkt væri mögulegt.
Annað atriði í bréfinu sem sýnt var í dag ýtti enn frekar undir málsvörn starfsmanna eigin viðskipta, en þar segir að athugun FME á eftirliti Kauphallarinnar hafi verið framkvæmd af ákveðinni þröngsýni og eftirhyggju þar sem einungis virðist vera horft til kaupa eigin viðskipta í tilboðsbókum, en ekki sett í samhengi við tilkynnt viðskipti (utanþingsviðskipti), fréttaflutning, tilkynningar o.fl.
Þessi sýn og skortur á að horfa til utanþingsviðskipta er það sem ákærðu hafa einmitt ítrekað bent á í málflutningi sínum og sagt að saksóknari sjái ekki alla myndina vegna ákvörðunar sinnar um að horfa aðeins á sjálfvirk pöruð viðskipti í Kauphöllinni, en ekki öll viðskipti. Þessi rökstuðningur var því vatn á millu ákærðu, en þegar saksóknari spurði Baldur um áhrif utanþingsviðskipta kom þó fram að þau væru jafnan minni á verðmyndun bréfa heldur en í pöruðum viðskiptum.
Saksóknari fékk þó líka eitthvað fyrir sinn snúð í dag. Þegar Baldur var t.a.m. spurður út í hegðun Kaupþings sem viðskiptavaka sagði hann að almennt reyndu viðskiptavakar að selja sama magn bréfa og þeir kaupa. Sagði hann formlega viðskiptavakt ganga út á að bjóða tilboð en að vera ekki ráðandi á markaði. „M.v. þær upplýsingar sem maður sá eftir á voru þeir ekki fyllilega í samræmi við hegðun viðskiptavaka,“ sagði hann um eigin viðskipti Kaupþings.