Viðar Guðjónsson
Stéttarfélagið Framsýn á Húsavík hefur samið við 23 fyrirtæki, eða um 30% fyrirtækja á svæðinu, um nýja kjarasamninga. Gengið var að kröfum Framsýnar í þessum tilvikum um 300 þúsund króna lágmarkslaun að sögn Aðalsteins Baldurssonar formanns Framsýnar.
„Um er að ræða 35 þúsund króna launahækkun við undirskrift. Eins ábyrgjast fyrirtækin að greiða 300 þúsund krónur í lágmarkslaun í síðasta lagi árið 2017, en flest fyrirtækin gera það strax,“ segir Aðalsteinn. Hann segir eitt fyrirtæki til viðbótar hafi boðað komu sína á fund í á morgun til að ganga frá sambærilegum samningi. Hann segir að níu fyrirtæki hafi komið á fund með Framsýn á fimmtudaginn í síðustu viku eftir að verkfall hófst sem stóð í hálfan dag. „Svo komu hin fyrirtækin í verkfallinu núna,“ segir Aðalsteinn. Að sögn hans voru því um 100 starfsmenn af 500-600 manns sem eru í Framsýn að störfum á verkfallsdögunum.
Samningarnir voru kynntir á fundi nú í kvöld. „Það var mikil gleði og fólk klappaði. Við ætlum að halda sameiginlegt vöfflukaffi á miðvikudaginn til að fagna þessu. Það er einum of mikið að halda 23 vöfflukaffi," segir Aðalsteinn kampakátur.
Búið að semja við 23 fyrirtæki