Verðlækkanir ekki í samræmi við væntingar

Raftækin hafa ekki lækkað alls staðar eins og vonast var …
Raftækin hafa ekki lækkað alls staðar eins og vonast var til. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkvæmt könnunum verðlagseftirlits ASÍ eru verðlækkanir á heimilistækjum vegna afnáms vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts mun minni en gera mátti ráð fyrir. Áætla má að verð allra þeirra heimilistækja sem skoðuð voru í könnuninni hefði átt að lækka um meira en 19% en sú er ekki raunin. Reyndar lækkar verð í 41% tilvika um meira en 20% en það vekur athygli að í 20% tilvika hækkaði verð á heimilistækjum eða það stóð í stað þrátt fyrir virðisaukaskattslækkun úr 25,5% í 24% og afnám vörugjalda um 20%-25%, segir í frétt um málið frá ASÍ.

Verðlagseftirlitið áætlar að vörur eins og sjónvörp, útvörp og myndspilarar sem áður báru 25% vörugjald ættu að lækka um 22,2%, með vsk. lækkuninni. Þvottavélar, kæliskápar, uppþvottavélar og helluborð sem áður báru 20% vörugjald og hefðu átt að lækka um 19,2%, með vsk. lækkuninni.

Engin vara sem skoðuð var í versluninni Rafha lækkaði um 19% eða meira og innan við helmingur þeirra vara sem skoðaðar voru í Max raftækjum og Eirvík. Verslunin Smith og Norland lækkaði verð um meira en 20% hlutfallslega oftast eða í tæplega 80% tilfella.

Í 20% tilfella hækkar verð eða stendur í stað

Kannanir verðlagseftirlits ASÍ á verði heimilistækja voru annars vegar gerðar í byrjun október 2014 og hins vegar í apríl 2015 en á tímabilinu var gengi krónunar stöðugt og því ekki hækkunarvaldur.

Ekki eru allar verslanir að lækka verð. Í ríflega 20% tilfella hækkar verð milli mælinga eða er óbreytt, í 13% tilfella lækkar verð um um minna en 10%, í 13% tilfella lækkar verð um 10-14,9%, í 13% tilfella lækkar verð á bilinu 15-19,9% og í um 40% tilvika lækkar verð um meira en 20%.

Verð ekki lækkað í samræmi við væntingar

Samkvæmt könnunum verðlagseftirlitsins eru verðlækkanir minni en gera mátti ráð fyrir. Það er einnig niðurstaðan þegar gögn Hagstofu Íslands eru skoðuð en samkvæmt mælingum Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs hefur verð á sjónvörpum, útvörpum og myndspilurum t.a.m. lækkað að meðaltali um 18% frá því í september 2014 og verð á stærri heimilistækjum um tæp 13%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert